
Í gær var tekin fyrsta skóflustungan að viðbyggingu leikskólans Jötunheima á Selfossi. Viðbyggingin verður 1.035 m3 og eru áætluð verklok haustið 2027.
Með stækkuninni verður Jötunheimar fyrsti leikskólinn á landinu sem verður með tólf deildir undir sama þaki.
Frumkvæðið að stækkuninni á Júlíana Tyrfingsdóttir, leikskólastjóri Jötunheima, en hún lagði hugmyndina upphaflega fyrir um átta árum síðan.
„Ég var búin að vera að melta þetta og skoða ein með sjálfri mér síðan ég heimsótti leikskólann Margarinfabrikken barnehage í Osló árið 2011 sem er 26 deilda leikskóli. Bæði út frá faglegu sjónarhorni sem og rekstrarlegu,“ segir Júlíana í samtali við sunnlenska.is.
„Bæjaryfirvöld tóku vel í hugmyndina en hún náði ekki lengra en á þetta umræðustig á þeim tíma. Er búin að vera að nefna þetta síðan af og til.“

Mannauður nýtist betur undir einu þaki
Fyrsta skóflustungan að Jötunheimum var tekin 3. maí árið 2007 og var leikskólinn tekinn í notkun haustið 2008. Gamla byggingin er 980 fermetrar að flatarmáli en með ört stækkandi samfélagi má segja að leikskólinn sé löngu sprunginn. Haustið 2023 opnaði leikskólinn tvær deildir í færanlegu kennslustofunum við Stekkjaskóla. Haustið 2025 opnaði leikskólinn svo tvær aðrar deildir.
„Þetta þýðir að við erum tíu deilda leikskóli í tveimur húsum. Það hefur það í för með sér að við erum að flakka á milli og því verður þægilegra að vera undir einu þaki hvað nýtingu mannauðsins varðar, auk þess sem það verður líka rekstrarlega hagkvæmara.“
„Þrátt fyrir stækkun skólans og fjölgun starfsfólks heldur lærdómssamfélagið í Jötunheimum áfram að styrkjast, sem skilar sér í metnaðarfullu leikskólastarfi fyrir börnin. Í könnunum og starfsþróunarsamtölum hefur komið fram að starfsfólk finnur lítið fyrir vaxtarverkjum og teljum við að þar sé helst að þakka mannauði leikskólans sem og menningu.“

Skýr framtíðarsýn
Almenn ánægja hefur verið bæði hjá foreldrum og börnum með Jötunheima og þykir mörgum eftirsóknarvert að fá pláss á leikskólanum.
„Við í Árborg erum svo heppinn að vera með svo ótrúlega flotta leikskóla í sveitarfélaginu og okkar markmið er að gera betur í dag en í gær. Jötunheimar eru með skýra framtíðarsýn og góða verkferla sem eru sýnilegir, þannig að starfsfólk er upplýst um sitt hlutverk í skólanum, sem skilar sér í starfinu með börnunum og til foreldranna.“
„Teymisvinna er einnig orðin fastur hluti af vinnulagi skólans sem kennarar telja vera árangursríka leið til að styrkja starfsaðferðir og efla skólamenningu og lærdómssamfélag Jötunheima. Mannauður leikskólans er einstakur og allir tilbúnir til að taka þátt í þessari vinnu með faglegan metnað að leiðarljósi.“
„Við erum líka svo ótrúlega heppin með frábæran foreldahóp sem hefur líka metnað fyrir leikskólastarfi og er það líka hvatning fyrir okkur til að gera betur. Það er svo ómetanlegt að fá ábendingar eða hugmyndir, taka samtalið og vinna með fólki. Þá gerast töfrarnir.“
Þakklát fyrir traustið
„Jötunheimar eru byggðir upp á ótrúlega góðum og sterkum faglegum grunni sem við erum alltaf að styrkja og byggja ofan á. Við stjórnendur leikskólans erum ótrúlega stolt af mannauðinum, barnahópnum og foreldrahópnum sem myndar leikskólann Jötunheima.“
„Við erum líka þakklátar fyrir að vera sýnt það traust að leiða þessa vegferð og vinna að þessari uppbyggingu sem er rekstrarlega hagkvæm fyrir sveitarfélagið og með gæði leikskólastarfs að leiðarljósi,“ segir Júlíana að lokum.

