Eingöngu veitt á flugu í Stóru-Laxá

Góð sala hefur verið á veiðileyfum í báðar Rangárnar og Stóru-Laxá að sögn Stefáns Sigurðssonar sölustjóra hjá Lax-á ehf.

,,Við höfum selt mikið í bæði Eystri og Ytri Rangá en það er ekki fullbókað ennþá,“ sagði Stefán.

Aðspurður sagði hann að aðsóknin væri svipuð og á síðasta ári, jafnvel heldur betri. Þannig hefði sala á fyrri hluta tímabilsins gengið betur en oft áður en mikil aðsókn er í haustveiðina í Rangánum.

Einhverjar verðhækkanir hafa orðið á milli ára, mest 5% að sögn Stefáns til að halda í við verðlagsbreytingar. Hann sagðist ekki sjá að það kæmi niður á aðsókninni.

Láx-á selur nú í fyrsta skipti í Stóru Laxá og talsverð breyting hefur verið gerð á veiðinni en eingöngu verður leyft að veiða á flugu næsta sumar. Verður veiðimönnum aðeins leyft að drepa einn fisk á dag en annars verður stuðst við veiða/sleppa veiðiskap.

Á svæði 4 verður síðan að sleppa öllum fiskum. Að sögn Stefáns eru veiðimenn ánægðir með þetta fyrirkomulag og gengur sömuleiðis vel að selja í ána. ,,Menn eru farnir að hafa skilning á þessu fyrirkomulagi sem fer auðvitað miklu betur með veiðina í ánum,” sagði Stefán.