Einföld og ljúffeng styrktarsala fyrir SKB

Einar Björnsson, kótelettukóngurinn á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árleg kótelettusala til styrktar Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna fer fram laugardaginn 12. júlí á tónlistar- og grillhátíð Kótelettunar á Selfossi.

Hátíðin hefur undafarin ár stutt við Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB) með sölu á kótelettum í samstarfi við Kjarnafæði, Stjörnugrís, Ali, SS, Kjötbankann, Mömmumat, Char Broil og Olís.

Gestum hátíðarinnar gefst þar tækifæri á að næla sér í úrvals grillaðar eða ferskar kótelettur og styðja um leið við mikilvægt starf SKB.

Sérstakir heiðursgrillarar í ár verða m.a. Hanna Katrín Friðriksson landbúnaðarráðherra, Sveinn Ægir Birgisson forseti bæjarstjórnar Árborgar, Þórir Erlingasson forseti Klúbbs matreiðslumeistara, Einar Bárðarson framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði og fleiri góðir gestir. Þau munu aðstoða við grillunnina hjá SKB.

„Þetta er eitthvað sem okkur þykir afar vænt um og hefur fest sig í sessi sem órjúfanlegur hluti af Kótelettunni. Það gleður okkur að sjá hve gestir hátíðarinnar eru viljugir að styðja við þessa mikilvægu styrktarsölu – á jafn einfaldan og ljúffengan máta,“ segir Einar Björnsson, framkvæmdastjóri Kótelettunnar.

Fyrri greinMikilvægara en veiðigjöldin
Næsta greinNýir eigendur að Vélaverkstæði Þóris