Einfaldur, fljótlegur og bragðgóður skyndibiti

„Við keyptum þennan vagn fyrir nokkrum árum, og það hafði lengi staðið til að við opnuðum hann hér á Selfossi,“ segir Axel Ingi Viðarsson á Selfossi, en hann ásamt systur sinni, Andreu, hefur opnað veitingavagn sem þau kalla Vefjuna.

Vagninn staðsettu þau við Engjaveg á Selfossi, þar sem auðvelt er að koma að honum. Strax á fyrstu dögunum fóru viðtökurnar fram úr björtustu vonum. „Við töldum okkur sjá hér þörf á svona vagni, með einfalda máltíð en holla og bragðgóða,“ segja þau systkin.

Raunar hafði Axel reynt fyrir sér í veitingavagnarekstrinum, með því að þræða bæjarhátíðir síðasta sumar með góðum árangri. „Það ýtti enn undir þá skoðun mína að þetta væri góð hugmynd,“ segir hann.

Axel segir uppskriftina að vefjunum vera leynilega. „Hana vita aðeins tveir einstaklingar, og þeir ferðast aldrei saman,“ segir hann kíminn og vitnar þar í sögur af uppskriftinni af Coca Cola, sem er eitt best varðveitta leyndarmál veitingabransans.

Staðsetningin á vagninum er tilkomin bæði vegna þess að auðvelt er að koma bílum að honum, auk þess sem stutt er í skólana, fjölbrautaskólann og grunnskóla, og segja þau systkin það vera einn helsta kúnnahópinn. „Við stílum vissulega mikið inn á skólakrakkana, en í hádeginu koma svo sem allir, ekki síst fólk sem þarf að grípa eitthvað gott og hollt í hádeginu,“ segja þau.

„Við viljum líka meina að upplagt sé fyrir fyrirtæki að hringja á undan sér því við getum á fimm mínútum útbúið um tíu stykki,“ bætir Axel við.

Og hvað er svo í vefjunni? Þetta eru kjúklingavefjur en í þeim er líka kál og annað grænmeti, og ýmsar sósur sem hægt er að nota til að bragðbæta vefjurnar. „Við viljum svosem ekki gera þetta sérstaklega flókið, með því að hafa þetta svona, getum við haldið niðri verðinu og aukið afgreiðsluhraðann,“ segja þau.

Fyrri greinInger Erla nýr stallari
Næsta greinHamar skoraði eitt stig í 4. leikhluta