Einfaldasta og hagkvæmasta leiðin er að byggja við Litla-Hraun

Bæjarráð Árborgar hvetur innanríkisráðuneytið, allsherjarnefnd Alþingis og þingmenn kjördæmisins til þess að hefjast handa sem allra fyrst við sjálfsagða og eðlilega uppbyggingu á starfsemi fangelsisins á Litla Hrauni.

Eggert Valur Guðmundsson, fulltrúi S-lista, lagði fram ályktun um málefni Litla-Hrauns á síðasta bæjarráðsfundi og tóku bæjarfulltrúar annarra flokka undir hana.

Í ályktun sinni leggur Eggert áherslu á að einfaldasta og hagkvæmasta leiðin að því marki að mæta brýnni þörf í fangelsismálum er að byggja nýja álmu við Litla-Hraun. “Hugmyndir um nýtt fangelsi á Hólmsheiði eru seinni tíma mál og erfiðleikar við fjármögnun þess mega ekki verða til þess að hægja á frekari uppbyggingu við Litla-Hraun sem gæti betur en önnur úrræði mætt hratt mikilli þörf fyrir aukið fangelsisrými,” segir í ályktuninni.

“Bæjaryfirvöld í Árborg hafa ávallt lagt mikla áherslu á áframhaldandi uppbygging verði við fangelsið á Litla Hrauni, til að mæta þeim vanda sem uppi er í fangelsismálum landsins,” segir Eggert. “Þrátt fyrir að fangelsisyfirvöld áformi að reisa gæsluvarðhaldsrými á Reykjarvíkursvæðinu, til að leysa af hólmi úrelta og óviðunandi aðstöðu, er jafn mikilvægt að áfram verði byggt á einum stað á Litla Hrauni öryggisfangelsi til framtíðar, í stað þess að dreifa starfseminni á marga staði og nýta þar með ekki þá reynslu og þekkingu sem til staðar er á Litla Hrauni.”