„Einelti líðst ekki í Árborg“

Átakið „Stöðvum einelti strax“ hófst í Árborg í gær en átakið er sameiginlegt verkefni samtakanna Heimilis og skóla og fleiri aðila.

Haldnir verða borgarafundir á ellefu stöðum á landinu og sá fyrsti var í gærkvöldi í Fjallasal Sunnulækjarskóla á Selfossi. Fundurinn var ágætlega sóttur en að loknum sex framsöguerindum fluttu ungmenni úr Árborg leikþátt og að því loknu voru pallborðsumræður.

Frummælendur á fundinum voru Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, Sandra Dís Hafþórsdóttir formaður fræðslunefndar Árborgar, Þórunn Jóna Hauksdóttir framhaldsskólakennari við FSu, Sjöfn Þórðardóttir formaður Heimilis og skóla, Ingibjörg Baldursdóttir liðsmaður Jerico og Þorlákur H. Helgason framkvæmdastjóri Olweusaráætlunarinnar á Íslandi.

Í máli Söndru Dísar kom fram að í grunnskólum Árborgar væru markmið og stefnur gegn einelti. Vallaskóli og Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri eru Olweusarskólar og í Sunnulækjarskóla er unnið eftir Uppeldi til ábyrgðar. Þá er markvisst starf í leikskólunum þar sem unnið er eftir ART. Skólaskrifstofa Suðurlands hýsir verkefnið og er leiðandi í því á landsvísu.

„Allir þekkja þolendur eða gerendur eineltis og verður hver og einn að líta í eigin barm. Þeir sem þegja eru óbeinir þátttakendur. Við getum alltaf gert betur og umræðan um einelti verður að vera opinská. Einelti líðst ekki í Árborg,” sagði Sandra Dís.

Þórunn Jóna skýrði frá því að FSu er fyrsti framhaldsskólinn á Íslandi sem nýtir verkfærakistu Olweusar. Innleiðing hófst fyrir ári síðan og er lögð rík áhersla á að lærdómssamfélagið allt taki þátt í þróun verkefnisins. Könnun sem gerð var í skólanum sýndi 1,7% einelti sem er afar lágt hvort sem litið er til sambærilegra niðurstaðna á Íslandi eða í Skandinavíu.

Þorlákur Helgason hefur stýrt Olweusaráætluninni gegn einelti og andfélagslegu atferli frá því fyrstu skólarnir tóku hana upp árið 2002. Síðan þá hefur hún komið tugþúsundum nemenda til hjálpar. Skilgreining Olweusar á einelti er skýr og útilokar að um stríðni eða einstaka atvik að ræða. Þá sýna rannsóknir að þolendur og gerendur eru í áhættuhópi eftir að eiginlegu einelti lýkur. Langvarandi einelti í grunnskóla þær afleiðingar að nemendur glíma við aðlögunarvanda í framhaldsskóla.

Þorlákur skýrði einnig frá því að leik- og framhaldsskólar væru að taka upp Olweusaráætlun gegn einelti en að einelti væri ekki einkamál skólakerfisins. Það smitaðist út í samfélagið. Á sama hátt gætu varnir gegn einelti í skóla líka smitast út í samfélagið.

Í fundarlok þakkaði Sjöfn Þórðardóttir góðar móttökur í Árborg og góða fundarsókn. Þá brýndi hún fundargesti til að taka virkan þátt í því að stöðva einelti.