Einar ráðinn sveitarstjóri Mýrdalshrepps

Einar Freyr Elínarsson, verðandi sveitarstjóri Mýrdalshrepps. Ljósmynd/Aðsend

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps ákvað á fundi sínum í morgun að ráða Einar Frey Elínarson sem sveitarstjóra Mýrdalshrepps. Einar tekur við starfinu af Þorbjörgu Gísladóttur þann 1. ágúst næstkomandi.

Á síðasta kjörtímabili var Einar Freyr oddviti sveitarstjórnar. Hann skipaði 3. sætið á B-lista Framsóknar og óháðra í sveitarstjórnarkosningunum í maí og fékk B-listinn kjörna þrjá fulltrúa af fimm í sveitarstjórn. Á fundinum í morgun sátu fulltrúar A-listans hjá við ráðningu sveitarstjóra og bókuðu að þau telji að það hefði verið farsælla að auglýsa stöðu sveitarstjóra.

Björn Þór Ólafsson, oddviti B-listans, var kjörinn nýr oddviti Mýrdalshrepps á fundinum í morgun og Drífa Bjarnadóttir verður varaoddviti.

Einar Freyr, Björn Þór og Drífa Bjarnadóttir. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinEkki búið að panta dúkinn á Hamarshöllina
Næsta greinSegja viðsnúning nýja meirihlutans með hreinum ólíkindum