Einar ráðinn framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Rangárvallasýslu

Einar Bárðarson. Mynd úr einkasafni.

Mýrdælingurinn Einar Bárðarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Rangárvallasýslu bs. Níu umsækjendur voru um starfið.

Einar er fertugur rafeindavirki en hefur einnig meirapróf og vinnuvélaréttindi. Hann starfar nú við alhliða verktakastarfsemi hjá FB lögnum en sinnti áður viðhaldi dælubúnaðar hjá Olíudreifingu um árabil og fasteignaumsjón hjá Skaftárhreppi. Þá átti Einar og rak Krásir ehf og sinnti þar búrekstri og vöruflutningum. Hann hefur starfað sem bílstjóri við vöruflutninga hjá AVP ehf og olíudreifingu hjá Skeljungi ehf auk þess að sinna sjúkraflutningum í Vík og Klaustri. Þá var Einar framkvæmdastjóri hjá Jeppar og allt ehf og starfaði einnig sem leiðsögumaður. Einar hefur verulega reynslu af félagsmálum, sat í sveitarstjórn Mýrdalshrepps og var formaður Björgunarsveitarinnar í Vík um árabil.

Stjórn sorpstöðvarinnar fól Ágústi Sigurðssyni, Ástu Berghildi Ólafsdóttur, Huldu Karlsdóttur og Lilju Einarsdóttur að taka viðtöl við umsækjendur og var það samdóma álit þeirra að Einar væri hæfasti umsækjandinn.

Einar mun koma að fullu til starfa hjá Sorpstöð Suðurlands bd þann 1. júní næstkomandi.

Fyrri greinFyrstu HSK metin í nýju höllinni
Næsta greinGestirnir tóku af skarið í lokin