Einar ráðinn þjóðgarðsvörður

Á fundi Þingvallanefndar þann 6. september síðastliðinn var samþykkt að ráða Einar Á. E. Sæmundsen, fræðslufulltrúa þjóðgarðsins, til eins árs í stöðu þjóðgarðarsvarðar frá og með 1. október næstkomandi.

Ólafur Örn Haraldsson lætur af störfum sem þjóðgarðarsvörður vegna aldurs um næstu mánaðamót.

Í Umhverfisráðuneytinu er unnið að frumvarpi um stofnun þjóðgarðastofnunar og vegna þess samþykkti Þingvallanefnd að fresta auglýsingu um starf þjóðgarðsvarðar í eitt ár. Á þeim tíma mun nefndin móta starfsskilyrði nýs þjóðgarðsvarðar og mun staðan verða auglýst að þeim tíma loknum.

Einar hefur starfað sem fræðslufulltrúi þjóðgarðsins frá árinu 2001. Hann útskrifaðist sem landfræðingur frá Háskóla Íslands 1996 og landslagsarkitekt frá háskólanum í Minnesota 2000. Einar hefur unnið að skipulagi fræðslustarfs hjá þjóðgarðinum ásamt því að hafa umsjón með framkvæmdum innan hans undanfarin ár. Einnig hefur hann unnið að umsókn Þingvalla fyrir heimsminjaskrá UNESCO og situr í stjórn samtaka Norrænna heimsminjastaða ásamt því að vera tengiliður þjóðgarðsins við ýmis alþjóðaverkefni sem þjóðgarðurinn hefur tekið þátt í. Einar er búsettur í Reykholti í Bláskógabyggð.

Fyrri greinSkoða göng milli lands og Eyja
Næsta greinÖll lögbýli tengd fyrir lok árs 2019