Einar kosinn formaður ungra bænda

Einar Freyr Elínarson í Sólheimahjáleigu í Mýrdal er nýr formaður Samtaka ungra bænda en aðalfundur samtakanna var haldinn í Úthlíð í Biskupstungum um helgina.

Samtök ungra bænda hafa það hlutverk að sameina unga bændur á Íslandi um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra. Jafnframt að vinna að bættri ímynd landbúnaðar með kynningar- og fræðslustarfi.

Ásamt hefbundnum aðalfundarstörfum voru tekin fyrir mál sem eru ungum bændum efst í huga um þessar mundir. Þar má nefna málefni Landbúnaðarháskóla Íslands, innflutningur erfðaefnis í íslenska kúastofninn, dýravelferð og nýliðun í landbúnaði.

Kosið var um nýjan formann samtakanna, en Jóhanna María Sigmundsdóttir gaf ekki kost á sér áfram. Tveir gáfu kost á sér í formannsembættið, þeir Logi Sigurðsson og Einar Freyr Elínarson. Einar Freyr var kosinn til tveggja ára með skriflegri kosningu en hann er þriðji formaður samtakanna frá stofnun þeirra.

Sömuleiðis voru kosnir í stjórn til tveggja ára þeir Ástvaldur Lárusson frá Núpi í Dýrafirði og Orri Jónsson frá Lundi í Lundareykjardal.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að góður andi hafi ríkt á fundinum og ungir bændur sjái fjöldamörg sóknartækifæri í landbúnaði, ef liðkað er fyrir nauðsynlegri nýliðun innan geirans. „Fjölbreytt atvinnulíf er grunnur heilbrigðs samfélags og þar gegnir landbúnaður lykilhlutverki, enda hleypir hann lífi í dreifðar byggðir landsins og tryggir um leið íslenskum neytendum hollar og heilnæmar vörur,“ segir í tilkynningunni.