Einar Karl skipaður dómari

Einar Karl Hallvarðsson.

Innanríkisráðherra hefur skipað Einar Karl Hallvarðsson, ríkislögmann, í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang hjá Héraðsdómi Suðurlands frá 28. febrúar næstkomandi.

Einar Karl Hallvarðsson lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1993 og öðlaðist málflutningsréttindi sem héraðsdómslögmaður árið 1994 og sem hæstaréttarlögmaður árið 1997. Hann hóf störf sem lögmaður við embætti ríkislögmanns árið 1994 og hefur verið skipaður ríkislögmaður frá september 2011. Á þessum tíma hefur hann flutt mikinn fjölda mála fyrir íslenska ríkið, þar á meðal fyrir Hæstarétti, Landsrétti, Félagsdómi og EFTA-dómstólnum.

Frá árinu 2016 hefur hann jafnframt verið fyrirsvarsmaður ríkisins gagnvart Mannréttindadómstól Evrópu. Þá hefur Einar Karl gegnt stöðu dósents í lögfræði við Háskólann á Bifröst frá árinu 2007 og frá árinu 2006 sinnt kennslu og haft umsjón með prófun í einkamálaréttarfari á námskeiðum til öflunar héraðsdómslögmannsréttinda.

Tíu umsækjendur voru um embættið, sem var auglýst í október síðastliðnum. Dómnefnd um hæfni umsækjenda mat Einar Karl hæfastan umsækjenda.

Fyrri greinGabríel og fjölskylda fengu veglega gjöf
Næsta greinFimm Selfyssingar í leikmannahópi Íslands