Einar Bárðar ráðinn samskiptastjóri

Einar Bárðarson hefur verið ráðinn samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar en um tímabundna ráðningu er að ræða til þrettán mánaða, frá 1. ágúst næstkomandi.

Einar er fyrrum rekstrarstjóri Reykjavík Excursions og forstöðumaður Höfuðborgarstofu. Síðustu misseri hefur hann starfað sem sjálfstæður ráðgjafi í ferðaþjónustu.

Einar mun í starfi sínu sem samskiptastjóri sveitarfélagsins annast samskipti og samstarf við fjölmiðla, hafa yfirumsjón með auglýsingum og kynningarefni, sinna stefnumótun og samhæfingu í upplýsinga- og ferðamálum þar sem sérþekking hans í ferðaþjónustu mun vonandi nýtast vel ásamt því að vera bæjarstjóra og öðrum starfsmönnum til ráðgjafar um samskipti og upplýsingagjöf. Einar mun tímabundið taka við verkefnum Árdísar Ármannsdóttur sem er á leið í fæðingarorlof.

Fyrri greinKFR vann stórsigur – Stokkseyri tapaði
Næsta greinMeistaramóts Íslands í frjálsum á Selfossvelli um helgina