Einar Bárðar: Þetta er bara lögreglumál

Nýjum útvarpssendi Kanans sem staðsettur var í Bláfjöllum hefur verið stolið. Einar Bárðarson, útvarpsstjóri, fór upp í Bláfjöll í dag til að kanna hvort sendirinn hefði verið tekinn úr sambandi en greip í tómt.

Sendirinn hafði verið skrúfaður niður og fjarlægður. Sendirinn datt út um kl. 14 í dag en hann útvarpaði um allt suðvesturland. Sendirinn var í eigu Kanans og kom til landsins fyrir þremur vikum síðan. Hann sendi út á tíðninni FM 100,5 en Kaninn fékk tíðninni úthlutað af Póst- og fjarskiptastofnun þegar Lýðvarp Ástþórs Magnússonar hætti útsendingum.

Í samtali við sunnlenska.is sagði Einar Bárðarson að málið væri komið í hendur rannsóknardeildar lögreglunnar í Kópavogi en hann telji sig þó vita hver hafi sendinn undir höndum. „Við heyrðum af ferðum Ástþórs og Lýðvarpsins þarna uppfrá og héldum að þeir hefðu slökkt á sendinum í einhverjum illindum. Eftir ágæta fjallgöngu í brjáluðu veðri komum við hins vegar að tómum kofanum. Þannig að þetta er bara lögreglumál,“ segir Einar.

Í augnablikinu næst Kaninn aðeins í Reykjavík á tíðninni 91,9 en hægt er að hlusta á hann á netinu.

Fyrri greinÞurrkuðu kannabis í sumarbústað
Næsta greinStórt tap hjá Hamri