Einar áfram formaður SUB

Aðalfundur Samtaka ungra bænda (SUB) var haldinn að Reykjum í Hrútafirði um síðustu helgi.

Samtök ungra bænda hafa það hlutverk að sameina unga bændur á Íslandi um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra. Jafnframt að vinna að ímynd landbúnaðar með kynningar- og fræðslustarfi.

Kosið var um tvo nýja meðlimi í stjórn SUB og tvo í varastjórn. Þórir Níelsson og Jóna Þórunn Ragnarsdóttir gáfu ekki kost á sér áfram. Jóna Björg Hlöðversdóttir og Jón Elvar Gunnarsson voru kosin í stjórn og Ólöf Ósk Guðmundsdóttir og Gunnar Guðbjartsson í varastjórn. Einar Freyr Elínarson í Sólheimahjáleigu er ennþá formaður samtakanna.

Fundurinn ályktaði um þau mál sem helst brunnu á fundarmönnum. Má þar nefna ályktun um búvörusamninga, breyttar áherslur í dýraverndarmálum, menntamál og aukna dýralæknaþjónustu. Þá samþykkti fundurinn að fela stjórn að kanna kosti þess að samtökin gerist aðildarfélag Bændasamtaka Íslands.

Fyrri grein„Strákarnir voru að berjast fyrir lífinu“
Næsta greinLionsklúbbur Selfoss gaf 1,5 milljónir í tilefni 50 ára afmælis