Eina íslenska merkið í nýju appi

Sunnlenska barnafataverslunin Beroma hefur verið valin til að forprófa sérstakt barnafata app og er Beroma eina íslenska merkið í hópi tuttugu hönnuða.

Appið, sem kallast „Lil’ Stylers“, er hugsað fyrir þá sem vilja fylgjast með öllu því nýjasta sem er að gerast í barnafatatískunni.

„Appið virkar svolítið eins og samblanda af Instagram og Facebook en notandinn sér aðeins myndir í fréttaveitunni sinni sem er póstað af notendum sem standa á bakvið barnafataverslanir, blogg sem tengist barnafatatísku eða barnafatahönnuði,“ segir Selfyssingurinn Berglind Rós Magnúsdóttir, eigandi Beroma. „Þessir notendur geta taggað myndirnar sínar sem gefur fólki kost á að smella á myndina og beinast þannig áfram beint á netverslun viðkomandi aðila,“ segir Berglind, en appið kemur á markaðinn í september.

Að sögn Berglindar hefur Beroma alltaf fengið athygli frá erlendum aðilum. „Ég hef komist í samband við marga innan barnafatabransans í gegnum Beroma. Þessi aðilar hafa síðan leitað til mín með allskonar hugmyndir og verkefni,“ segir Berglind. „Þegar byrjað var að smíða þetta app þá var haft samband við mig til að athuga hvort ég vildi vera í hópi þeirra sem vildu forprófa appið,“ segir Berglind en auk þess að hanna undir Beroma merkinu, selur hún einnig vörur frá öðrum í verslun sinni í Faxafeni í Reykjavík.

Berglind er að vonum ánægð með að vera valin til að taka þátt í þessu verkefni. „Þetta er spennandi verkefni, sérstaklega þegar maður veltir sér uppúr þessum bransa dagsdaglega. Þetta er frábært tækifæri fyrir Beroma til að vekja enn meiri athygli á erlendum markaði. Við erum komin með dreifingaraðila fyrir hluta af okkar vörum í Bandaríkjunum og því er þetta frábær leið til að vekja enn meiri athygli þar,“ segir Berglind að lokum.

Fyrri greinLeikjaniðurröðun á Ragnarsmótinu tilbúin
Næsta grein„Við gefumst aldrei upp“