Eina fimm stjörnu verkstæðið á Suðurlandi

Bílverk BÁ á Selfossi fékk í gær BGS gæðavottun frá Bílgreinasambandinu og um leið fimm stjörnu vottun frá tryggingafélaginu Sjóvá.

Þessum áfanga var fagnað á verkstæði BÁ í gær að viðstöddu fjölmenni undir styrkri veislustjórn Sigurðar Fannars Guðmundssonar, rithöfundar.

BGS gæðavottun er nýlegt vottunarkerfi frá Bílgreinasambandi Íslands. Bilverk BÁ var á sínum tíma fyrsta verkstæðið á Suðurlandi sem var gæðavottað. Vottunin sem Bílverk fékk í gær er uppfærsla á þeirri vottun en henni fylgir aukið eftirlit með þeim bifreiðum sem fara í gegnum verkstæðið.

Eftirlit þetta er framkvæmt tvisvar á ári af sérfróðum eftirlitsmönnum, en einnig eru tekin stöðutékk þegar síst skyldi, en þá koma eftirlitsmenn í óvænta heimsókn og taka út vinnubrögð verkstæðisins. Allt þetta er gert með hagsmuni neytandans í huga.

Fimm stjörnu vottun Sjóvár fæst samhliða vottun Bílgreinasambandsins. Til þess að hljóta fimm stjörnur þarf verkstæði að uppfylla ýmis skilyrði, t.d. framkvæma faglegar viðgerðir, bjóða úrvals þjónustu og gott viðmót og kanna bótaskyldu og rétt tjónþola til bílaleigubíls. Bílverk BÁ er eina fimm stjörnu verkstæðið á Suðurlandi.

Í samtali við sunnlenska.is sagði Birgir að honum þætti til mikillar fyrirmyndar að Sjóvá skuli flokka verkstæðin eftir menntun starfsmanna og gera í leiðinni þær kröfur að verkstæðin starfi undir eftirliti. „Slíkt eftirlit eykur á öryggi neytandans og þessi vottun er því af hinu góða fyrir alla hagsmunaaðila,” segir Birgir.

Auk gæðaviðurkenninganna fögnuðu Birgir og starfsmenn hans í Bílverk því að nýr salur fyrirtækisins var tekinn í notkun fyrr á árinu. Sá salur er notaður til ryklítillar vinnu, framrúðuskipta, tjónaskoðunar og þvotta, en meðal nýjunga í þjónust fyrirtækisins er að öllum bílum sem fara í gegnum verkstæðið er skilað hreinum til viðskiptavina sinna.

Fyrri greinFallþungi líklega yfir meðaltali
Næsta greinKnattspyrnutímabilið gert upp