„Ein glæsilegasta byggingavöruverslun í Evrópu“

Sverrir Einarsson og Guðrún Tinna Ólafsdóttir eru ánægð og stolt af nýju Húsasmiðjunni við Larsenstræti á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Föstudaginn 17. nóvember opnar Húsasmiðjan formlega nýja og glæsilega verslun í 5.000 fermetra nýbyggingu við Larsenstræti 6 á Selfossi.

Nýja húsnæðið er sérhannað til reksturs byggingavöruverslunar en undir sama þaki verða einnig Blómaval og Ískraft. Gömlu versluninni við Eyraveg var lokað á hádegi síðastliðinn föstudag en þar hafði Húsasmiðjan rekið verslun í yfir 22 ár.

Mikið þrekvirki
„Við erum búin að vinna þrekvirki að ná að flytja verslunina á tveimur og hálfum degi. Þetta eru frábærir samstarfsmenn sem hafa lagt á sig mikla vinnu. Það er búinn að vera mikill Húsasmiðjuandi og góð liðsheild – eitthvað sem minnir á það þegar ég byrjaði fyrst hjá Húsasmiðjunni árið 1998,“ segir Sverrir Einarsson, rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

Þegar blaðamaður sunnlenska.is leit við í nýju Húsasmiðjunni í dag var verið að leggja lokahönd á ýmis smáatriði og er óhætt að segja að stemningin hafi verið létt og skemmtileg. Það er augljóst að starfsfólk Húsasmiðjunnar er stolt af nýju versluninni.

„Við opnuðum nýju verslunina óformlega í morgun klukkan átta, þetta er svokölluð mjúk opnun. Á fimmtudaginn verður svo opnunarhátið fyrir helstu samstarfsmenn, bæjarstjórn, verktaka og stærstu viðskiptavini og starfsmenn. Þá munu Karlakór Selfoss og Helgi Björns mæta og taka nokkur lög,“ segir Guðrún Tinna Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri verslunarsviðs hjá Húsasmiðjunni.

Smári Guðjónsson, verkstjóri í timbursölu og Sigríður Runólfsdóttir deildarstjóri timbursölunnar, taka brosandi á móti viðskipavinum Húsasmiðjunnar. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Leggja áherslu á þarfir viðskiptavina
Það er mál manna sem hafa komið inn í nýju Húsasmiðjuna að hún þykir einstaklega glæsileg í alla staði og öll hönnun til fyrirmyndar. „Þegar við fórum í þá vegferð að hanna nýja verslun fyrir Húsasmiðjuna, Blómaval og Ískraft þá vorum við með nokkuð skýra mynd af því hvernig við vildum hafa búðina og þjónustuna. Til að hjálpa okkur að skerpa enn frekar á upplifun viðskiptavina þá fengum við frábæra ráðgjafa frá MWorldwide í Bretlandi til að vinna verkefnið áfram.“

Guðrún Tinna segir að þau leggi áherslu á þarfir viðskiptavina, aukna upplýsingagjöf, stafræna tækni og aukin svæði með sýnishornum. „Verslunin á Selfossi er í sama anda og verslun okkar á Akureyri sem var opnuð fyrir rúmu ári síðan. Þar unnum við einnig með bresku ráðgjöfunum og í framhaldinu fengum við silfurverðlaun í bresku DBA hönnunarverðlaununum. Við erum því mjög spennt að opna sambærilega verslun hér á Selfossi í vikunni.“

Gauti Sigurgeirsson og Kristín Dögg Jónsdóttir, rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar á Akureyri, komu suður síðastliðinn miðvikudag til að hjálpa við að standsetja verslunina á Selfossi. Sverrir segir að þau hafi veitt ómetanlega aðstoð við að skipuleggja flutningana og þjálfa starfsfólkið. Þau opnuðu nýja Húsasmiðju á Akureyri fyrir einu og hálfu ári. „Við opnuðum 18. mars 2022. Ég man þetta eins og fæðingardag barnanna minna,“ segir Kristín sem vonaðist til að geta farið heim til barnanna sinna á Akureyri síðar í dag. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Meðal nýjunga í nýju Húsasmiðjunni má nefna sjálfsafgreiðslukassa og rafrænar hillumerkingar. „Einnig munum við bjóða upp á glæsilegt sölu- og ráðgjafasvæði fyrir söluráðgjafa bæði í heimilistækjum, hreinlætistækjum, málningu og gólfefnum en ekki síður verður mun betri upplifun fyrir starfsmenn og viðskiptavini sem koma hingað til að fá tilboð og kaup á þungavöru.“

Mikill Húsasmiðjuandi
Um liðna helgi sáu 150 manns um að flytja gömlu verslunina yfir í þá nýju. Auk þess var fjöldinn allur af iðnaðarmönnum sem lagði lokahönd á nýju verslunina. „Það lögðust allir á eitt við að hjálpa til við flutningana; starfsmenn Húsasmiðjunnar og Blómavals frá Reykjavík, verslunum okkar í Skútuvogi, fagmannaverslun og Grafarholti, starfsfólk frá Vestmannaeyjum, Akranesi og öflugur hópur frá Akureyri ásamt stórum hópi kvenna sem vinna á skrifstofu Húsasmiðjunnar í Reykjavík. Þær voru hér alla helgina að raða í hillur og gera verslunina tilbúna,“ segir Guðrún Tinna, þakklát fyrir alla hjálpina.

„Það einkennir fyrirtækið mikill Húsasmiðjuandi – allir sem vettlingi geta valdið eru tilbúnir að koma frá sínum daglegu störfum og taka þátt í þessu stóra og mikla verkefni. Nánast allir starfsmenn og helgarstarfsmenn frá versluninni á Selfossi hafa unnið hörðum höndum síðustu dagana að tæma gömlu búðina og fylla þá nýju. Að auki tóku meistaraflokkslið Selfoss í handbolta þátt í að flytja verslunina. Máltækið margar hendur vinna létt verk á svo sannarlega vel við hér.“

Sverrir segir að það leggist mjög vel í starfsfólkið hans að vera komið í nýju Húsasmiðjuna við Larsenstræti. „Auðvitað er alltaf ákveðinn kvíði og spenna – hvernig verður þetta, hvar á ég að vera, hvar verða vörurnar mínar og allt þetta – en ég held að síðustu dagar eða síðustu tvær vikur hafi róað fólk. Við erum búin að funda nokkrum sinnum og koma hingað, fólkið sjálft fær að vinna í að setja upp sínar vörur og ákveða – eru með í framkvæmdinni. Það hefur gefið fólki rosalega mikið.“

Sverrir ásamt Sigurði Rúnari Andréssyni. Hann er sá starfsmaður hjá Húsasmiðjunni á Selfossi sem er með lengstan starfsaldur en hann hóf störf 2001. Rúnar, eins og hann er alltaf kallaður, er 75 ára og í fullu fjöri. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Lægri rekkar og úrval sýnishorna
Sverrir segir að með nýju Húsasmiðjunni geti þau framsýnt vörurnar og það eitt muni mjög miklu. „Við erum með meiri yfirsýn yfir búðina og það breytir miklu bæði fyrir starfsfólkið og viðskiptavinina. Með því að hafa lægri rekka þá sjá viðskiptavinirnir okkur og við sjáum þá. Nú getum við líka sýnt og keppt við samkeppnisaðilana með frábær sýnishorn, vöruúrval og glæsileika. Þú ert að labba inn í eina glæsilegustu byggingavöruverslun í Evrópu. Það er bara þannig,“ segir Sverrir og stoltið leynir sér ekki.

Í nýju Húsasmiðjunni er mikið úrval af sýnishornum. „Selfoss er ein mikilvægasta verslunin okkar og ein stærsta búðin okkar. Við lögðum áherslu á að hafa góð sýnishorn í öllum þessum valvörum og líka í þungavörunum – það er búið að setja upp alls konar veggi með sýnishornum. Þó að vörurnar séu ekki allar geymdar hér þá er samgangur á milli Reykjavíkur þar sem stóru vöruhúsin okkar eru. Viðskiptavinir okkar sjá núna meira vöruúrval þó að það taki kannski einn eða tvo daga að fá vöruna senda úr Reykjavík,“ segir Guðrún Tinna.

Þorsteinn Óli Kjerúlf Sveinsson er einn af lykilmönnunum þegar kom að uppsetningu nýju Húsasmiðjunnar. Hann er fyrstur inn og síðastur út. Þorsteinn hefur dvalið í Fagrabæ hjá Fúsa Kristins síðan í ágúst en býr annars á Egilstöðum. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Allir tilbúnir að hjálpa
Það er augljóst að það er góður starfsandi í Húsasmiðjunni og samheldnin er mikil. Þegar kom að því að flytja verslunina þá lögðust allir á eitt. „Þetta er búið að vera rosalega skemmtilegt. Það sem mér finnst skemmtilegast er að við ákváðum að gera öll saman þessa einu helgi og það mættu allir. Það tóku allir þátt í þessu. Það fannst öllum þetta geggjað,“ segir Sverrir sem sjálfur tók ein 22.000 skref í gær. „Ég var þó örugglega ekki með flestu skrefin.“

Guðrún Tinna tekur undir orð Sverris og bætir við að það hafi verið átak að opna á þessum tíma. „Í fyrsta lagi er jólavertíðin að detta inn og hjá okkur eru jólin gífurlega mikilvæg. Þó að við séum byggingarvöruverslun og gríðarlega sterk í þungavörum og í verktökum þá erum við ofboðslega sterk í jólavörunum – og þá eru það einkum jólaseríurnar. Þar kemur Blómaval mjög sterkt inn með allri jólavörunni sinni. Þannig að við erum að setja upp heila jóladeild á sama tíma og við erum að flytja. Í öðru lagi er mikið að gera hjá starfsfólki á þessum tíma – jólaboðin eru að byrja og þess háttar. Við hefðum í raun ekki getað valið erfiðara tímabil til manna og fara í þetta verkefni. Við erum ofsalega ánægð hvað okkur tókst að gera mikið úr álagspunktinum.“

Starfskonur Blómavals eru mjög ánægðar með nýju Húsasmiðjuna og hlakka til að taka á móti viðskiptavinum. Páfagaukurinn Sunna, sem hefur fylgt Húsasmiðjunni síðan 2001 og mörgum börnum þykir vænt um, mun flytja þegar allt er tilbúið og komin meiri ró yfir verslunina. Búrið hennar er tilbúið úti í glugga, á besta stað. F.v. Anna Jónsdóttir, Ásthildur Óskarsdóttir og Aðalheiður Halla Sigurjónsdóttir. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Bjóða til veislu
Sverrir segir að starfsfólkið sé allt reiðubúið til að taka auka vaktir og leggja á sig auka vinnu í kringum opnunina og geri það með glöðu geði. „Ég sagði við starfsfólkið mitt áðan að nú værum við að bjóða til veislu og við yrðum að vera heima þegar gestirnir kæmu í veisluna. Við erum öll mjög stolt af nýju versluninni. Á seinustu metrunum í gær, þegar gólfið var orðið hreint og vörurnar komnar upp þá kom bara svona vá! – djöfull er þetta flott hjá okkur,“ segir Sverrir sem á þó ekki von á því að spennufallið komi fyrr en um jólin þegar þau fara að hvíla sig.

„Á föstudaginn verður búðin opnuð með glæsibrag og á laugardaginn verðum við með fjölskylduhátið með Latabæ, blöðrur, veitingar og gleði. Við verðum samhliða opnuninni með fjölda glæsilegra opnunartilboða út mánuðinn. Ég er sannfærð um að viðskiptavinir okkar verði jafn ánægðir með þessa nýju verslun og við erum sjálf, þar sem upplifun og vöruframboð er til fyrirmyndar. Við værum ekki hér nema fyrir viðskiptavininn,“ segir Guðrún Tinna.

„Ég hvet alla viðskiptavini til að koma og skoða þessa stórglæsilegu verslun og nýta sér vörurnar okkar og þjónustuna okkar,“ segir Sverrir að lokum.

Ársæll Jónsson, ráðgjafi timbursölu, er mjög ánægður með staðsetninguna á nýja skrifborðinu sínu. Nú getur hann séð út um gluggann hvernig veðrið er. Sæli, eins og hann er alltaf kallaður, tekur brosandi á móti viðskiptavinum – ungum sem öldnum. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinOK festir kaup á upplýsingatæknihluta TRS
Næsta greinAtvinnuuppbygging og þróun íbúðamarkaðar á Suðurlandi