Ein gata og tvö fyrirtæki verðlaunuð fyrir snyrtimennsku

Íbúar Básahrauns 25–35 sem voru heima þegar viðurkenningin var afhent, ásamt þeim Hrönn og Hirti frá umhverfisnefndinni. (F.v.) Hrönn Guðmundsdóttir, Bettý Grímsdóttir, Árni Hrannar Arngrímsson, Marian Stanislaw Barzowski, Guðni Birgisson, Ingigerður Eyglóardóttir, Ragnhildur Þorsteinsdóttir, Gauti Guðlaugsson og Hjörtur Ragnarsson. Á myndina vantar Guðbjörgu Kjartansdóttur, Markús Haraldsson, Jóhannes Magna Magneuson og Anettu Sigdísi Kristinsdóttur. Ljósmynd/Ölfus

Umhverfisnefnd Ölfuss veitti á dögunum þrenn umhverfisverðlaun, en í ár voru veitt verðlaun fyrir snyrtilegustu götuna og snyrtilegustu fyrirtækin, bæði í Þorlákshöfn og í dreifbýlinu.

Básahraun 25-35 var valin snyrtilegasta gatan í sveitarfélaginu. Gatan er fallegur botnlangi með hlýlegri heildarsýn þar sem húsunum er vel við haldið og garðarnir grónir og snyrtilegir. Gatan er íbúum sínum til mikils sóma og skapar gott fordæmi fyrir umhverfisvitund og samheldni.

Eyþór, Guðrún Jóna og börnin þeirra ásamt Hrönn. Ljósmynd/Ölfus

Í Þorlákshöfn varð Skálinn fyrir valinu sem snyrtilegasta fyrirtækið. Skálinn rekur eldneytisstöð, sjoppu og veitingastað og hefur nýverið verið málaður í fallegum bleikum lit sem vekur athygli og gleði. Plönin í kring eru snyrtileg og vel hirt. Rekstraraðilar Skálans, Guðrún Jóna Árnadóttir og Eyþór Sigurðarson, hafa lagt metnað í að skapa aðlaðandi og vistvænt umhverfi fyrir gesti og viðskiptavini.

Erla og Kristinn ásamt Geir og Baldri fulltrúum umhverfisnefndar. Ljósmynd/Ölfus

Í dreifbýlinu varð Hrossaræktarbúið á Laugarbökkum fyrir valinu. Laugarbakkar standa við bakka Ölfusár, rétt neðan við þar sem Sogið og Hvítá mætast. Þar hafa Kristinn Valdimarsson og Erla G. Matthíasdóttir rekið hrossaræktarbú frá árinu 2002. Umhverfið er einstaklega snyrtilegt – ný hús hafa verið byggð, eldri hús endurnýjuð, reiðvegir lagðir, vegir malbikaðir og skjólbelti gróðursett. Túnin eru vel hirt og skurðruðningar sléttaðir, sem gefur jörðinni skipulagt og fallegt yfirbragð.

Fyrri greinFór Ísland nokkuð á hliðina?
Næsta greinÞað á að segja fólki satt, ekki afvegaleiða það