Eignaðist 83 íbúðir á Suðurlandi

Íbúðalánasjóður leysti til sín 83 eignir á Suðurlandi á síðasta ári samkvæmt upplýsingum sem fengust frá sjóðnum. Langflestar eignirnar eru í Árborg eða 49 talsins en áður átti sjóðurinn aðeins 6 eignir þar.

Fyrir átti Íbúðalánssjóður 82 eignir á Suðurlandi þannig að hann tvöfaldar eignir sínar á árinu. Íbúðalánasjóður hefur líklega verið stórtækari í öðrum landshlutum og má sem dæmi taka að hann tók yfir á einu bretti 120 íbúðir á Austurlandi á síðasta ári.

Lán Íbúðalánasjóðs eru yfirleitt á 1. veðrétti. Því verður Íbúðalánasjóður að verja kröfu sína með þátttöku í nauðungarsölu ef síðari veðhafar óska eftir nauðungarsölu. Í lok október á síðasta ári kom fram að Íbúðalánasjóður hefur eignast tæplega 900 íbúðir vegna þess að lántakendur hafa ekki getað staðið í skilum. Íbúðum í eigu Íbúðalánasjóðs hefur fjölgað mjög hratt síðasta ár en um mitt ár 2009 átti sjóðurinn um 250 íbúðir.