Eiginmennirnir vilja leyna klúðrinu fyrir konunum

Í liðinni viku hafði lögreglan á Selfossi afskipti af þremur ökumönnum sem grunaðir voru um að vera undir áhrifum fíkniefna við akstur.

Um var að ræða tvo karlmenn undir tvítugu og eina konu á þrítugsaldri og bíða mál þeirra nú niðurstöðu rannsóknar á blóðsýnum sem tekin voru. Kona á sextugsaldri var kærð fyrir að aka undir áhrifum áfengis á Selfossi að kvöldi 17. júní.

Í síðustu viku voru 23 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt. Um er að ræða 13 karla og 10 konur. Sá sem hraðast ók var á 125 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst og var boðið að ljúka máli sínu með greiðslu sektar að upphæð 70 þúsund krónur. Sé slík sekt greidd innan 30 daga fá menn 25 % afslátt af sektarupphæðinni, 17.500 krónur í þetta skiptið.

Lögreglumenn taka við sektargreiðslum í bíluum og eru með GSM posa til að unnt sé að nota greiðslukort. Af þessu er mikið hagræði en hinsvegar hafa sumir ökumenn kvartað undan því að greiðslan sé sýnileg í heimabankanum og þar með komist makinn að klúðrinu. Oftar eru það eiginmenn sem hefðu gjarnan viljað komast hjá umræðunni við eiginkonuna um aksturslag og ökuhraða, eins og það er orðað í dagbók lögreglunnar.

Í tveimur tilvikum voru skráningarnúmer bifreiða fjarlægð þar sem ökutækin reyndust ótryggð í umferðinni. Þá reyndust fimm ökumenn vera án ökuréttinda, ýmist að aka sviptir, ökuréttindi útrunnin eða að viðkomandi hafði aldrei tekið bílpróf.

Fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu, minniháttar meiðsl urðu í einu þeirra en þar missti ökumaður bifhjóls vald á hjóli sínu og lenti utan vegar á Skeiðavegi. Í öðru tilviki lenti gámaflutningabifreið aftan á fólksbifreið sem stöðvuð var á Suðurlandsvegi, skammt frá Bitru vegna vegaframkvæmda sem þar voru í gangi. Gámaflutningabifreiðin lenti út í kanti og tók nokkurn tíma að ná henni inn á veginn aftur og hlutust því nokkrar tafir af.

Fyrri greinSkinnum og rifflum stolið í Laugardalnum
Næsta greinRagnar Örn: Leika golf meðfram Þjóðvegi 1