Eggja-æði á Hvolsvelli

Íslenskar landnámshænur sem sluppu úr hænsnakofa á Hvolsvelli um helgina hafa gengið lausar um bæinn og skilið eftir sig glaðning víða, en egg liggja á víð og dreif um Hvolsvöll.

Illa hefur gengið að smala hænunum saman en talið er að fimmtán hænur og einn hani leiki lausu stéli á Hvolsvelli.

Finnur Bjarki Tryggvason var einn þeirra sem fór á stjá í dag og var hann búinn að finna talsvert af eggjum.

“Við höfum fundið egg við grunnskólann og bakvið sundlaugina og ég heyrði af eggjum sem fundust í Stóragerðinu á Gamla róló og víðar,” sagði Finnur Bjarki í samtali við sunnlenska.is.

Á Facebook síðunni Naflinn er fólk hvatt til að setja inn myndir og fréttir af eggjaleitinni.

UPPFÆRT KL. 22:54: 1. APRÍL!!!!