Eggert vildi ræða söluna

Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi S-lista, telur eðlilegt að þjónustu- og kaupsamningur Sveitarfélagsins Árborgar við Björgunarfélag Árborgar hefði fengið umræðu meðal kjörinna fulltrúa í sveitarfélaginu.

Eggert lagði fram bókun þess efnis í bæjarráði í vikunni þar sem hann segir að þegar verið er að kaupa eða selja eignir sveitarfélagsins, sé eðlilegt og í anda góðra stjórnsýsluhátta, að leggja fram til efnislegrar umræðu meðal kjörinna fulltrúa slíka samninga áður en kemur að lokaundirskrift.

„Í samkomulagi við Björgunarfélagið er einnig um að ræða umfangsmikinn þjónustusamning milli aðila þar sem kaupandi tekur á sig margvíslegar skuldbindingar gagnvart seljanda sem hluta af greiðslum fyrir eignina. Það hefði verið sjálfsagt að bæjarfulltrúar hefðu haft aðkomu að lokafrágangi samkomulagsins en ekki lesið um undirskrift samningsins í fjölmiðlum,“ segir Eggert.

Bæjarfulltrúar D-lista svöruðu því til að samningurinn við Björgunarfélagið hafi verið lagður fram í bæjarráði í júlí og hafi ekki tekið neinum efnislegum breytingum síðan þá.

Fyrri greinTorkennilegt ljós í Mýrdalsjökli
Næsta greinMótmæla fjármagni í „glærusýningu“