Eggert segir Sýslumannstúnið ekki nógu stórt fyrir kirkju

Eggert Valur Guðmundsson, fulltrúi S-listans í bæjarráði Árborgar, greiddi atkvæði gegn því að kaþólska kirkjan fengi Sýslumannstúnið á Selfossi undir kirkjubyggingu.

Málið var rætt í bæjarráði í morgun þar sem tillaga skipulags- og byggingarnefndar um að kaþólska kirkjan fengi lóðina við Austurveg 37, svokallað Sýslumannstún undir kirkju var samþykkt með tveimur atkvæðum meirihlutans.

„Það er skoðun [mín] að lóðin Austurvegur 37 sé ekki nægjanlega stór til þess að uppfylla þarfir kaþólsku kirkjunnar á Íslandi fyrir kirkjubyggingu og önnur umsvif sem slíkri starfsemi fylgja eins og t.d. rými fyrir bílastæði o.fl. auk þess sem nauðsynlegt er að kanna hug eigenda næstu lóða áður en slíkt vilyrði er gefið út,“ segir Eggert í bókun á fundinum.

Eggert telur eðlilegt að umsókninni verði vísað til umsagnar og úrvinnslu annars vegar hjá starfshópi um nýtt miðbæjarskipulag og hins vegar hjá starfshóp um framtíð mjólkurbúshverfis á Selfossi.