Eggert segir óábyrgt að fella tillöguna

Bæjarstjórn Árborgar kolfelldi í gær tillögu S-listans um að bæjarstjórnin myndi skora á Alþingi að taka til baka tillögu um að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka.

Í greinargerð með tillögu S-listans segir að spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu sé mikilvægari en svo að einstakir stjórnmálaflokkar eigi að ráða úrslitum í svo mikilvægu máli.

Bæjarfulltrúar S-listans telja að hér sé um að ræða svo stórt hagsmunamál að eðlilegt sé að þjóðin fái aðkomu að ákvörðun um framhald þess. „Í ljósi þeirrar staðreyndar að yfir 51.000 Íslendingar hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að sýna þjóðinni þá virðingu að heimila þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, leggjum við þessa ályktun fram,“ segir í greinargerðinni.

Tillagan var borin undir atkvæði og felld með 6 atkvæðum fulltrúa D- og B-lista, fulltrúi V-lista sat hjá.

„Mér finnst óábyrgt af þessum bæjarfulltrúum sem felldu tillöguna að hafa ekki áhuga á því að vita hvað aðlild að Evrópusambandinu þýðir fyrir sveitarstjórnarstigið,“ sagði Eggert Valur Guðmundsson, oddviti S-listans, í samtali við sunnlenska.is. „Margar sveitastjórnir hafa að undanförnu samþykkjt ályktanir í takt við þessa tillögu og því eru það okkur mikil vonbrigði að tillagan skuli hafa verið felld.“