Eggert ráðinn forstjóri Landeldis hf.

Eggert Þór Kristófersson nýráðinn forstjóri Landeldis. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Landeldis hf. hefur ráðið Eggert Þór Kristófersson í starf forstjóra félagsins. Hann hefur störf 17. ágúst næstkomandi.

Eggert er fæddur árið 1970. Hann hefur meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri eignastýringar Glitnis banka á Íslandi og í Finnlandi, framkvæmdastjóri fjármálasviðs N1 og frá 2015 sem forstjóri N1, sem síðar varð Festi hf. Þá hefur hann setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækia. Eggert er með Cand. oecon. gráðu á endurskoðunarsviði í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og er jafnframt löggiltur verðbréfamiðlari.

Eggert Þór tekur við af Halldóri Ólafi Halldórssyni, stjórnarformanni Landeldis, sem sinnt hefur starfi framkvæmdastjóra samhliða stjórnarformennsku.

„Ég er þakklátur fyrir tækifærið til að taka þátt í uppbyggingu á fiskeldi á landi. Félagið hefur góðan og reynslumikinn hóp starfsfólks og stjórnenda sem hafa mikla þekkingu af fiskeldi og ég hlakka til að starfa með því og gera Landeldi enn betra fyrirtæki sem mun framleiða hágæða vöru til útflutnings með jákvæðum umhverfisáhrifum,“ segir Eggert.

Landeldi hf. var stofnað árið 2017. Sveitarfélagið Ölfus hefur stutt við félagið frá upphafi og aðstæður í Ölfusi eru einkar hagstæðar fyrir laxeldi á landi. Félagið stefnir á að vaxa jafnt og þétt í 33.500 tonna ársframleiðslu árið 2028. Félagið rekur seiðaeldisstöð í Hveragerði og áframeldisstöð við Þorlákshöfn á samtals yfir 33 ha svæði og hefur í dag öll tilskilin leyfi til að ala lax á landi. Um 25 manns vinna hjá félaginu og um 50 starfsmenn hjá undirverktökum.

Fyrsta kynslóð laxa Landeldis í sjótanki við Laxabraut í Þorlákshöfn.
Fyrri grein„Ótrú­lega flott­ur leik­ur hjá okk­ur“
Næsta greinFramkvæmdir að hefjast við nýjan þjónustukjarna á Níunni