„Ég vona að þið skiljið þetta og styðjið okkur áfram“

Daði og Gagnamagnið. Ljósmynd: RÚV/Baldur Kristjánsson

Jói úr Gagnamagninu greindist jákvæður í COVID-19 skimun í morgun. Hann staðfesti þetta með tárin í augunum á Instastory hjá Gagnamagninu.

Þar með er ólíklegt að Daði og Gagnamagnið taki þátt í æfingu í kvöld og litlar líkur á að sveitin stígi á svið í beinni útsendingu annað kvöld heldur verði að nota upptöku.

„Ég vildi láta ykkur vita að ég er ekki veikur en þetta er mjög erfitt því við höfum lagt svo hart að okkur í langan tíma og mig langaði þetta svo mikið. Ég er í áfalli og mjög leiður yfir þessu. Við vonum að þið standið með okkur og að við getum gert Íslendinga og aðdáendur okkar stolta. Við erum mjög stolt af upptökunni af æfingunni í síðustu viku, sem gekk mjög vel,“ segir Jóhann Sigurður á Instagram.

„Ég er enn að melta þetta, ég fór mjög varlega en það hefur eitthvað farið úrskeiðis. Kannski getum við tekið þátt á laugardag, en það er bjartsýni. Ég vona að þið skiljið þetta og styðjið okkur áfram. Takk fyrir stuðninginn,“ segir Jóhann ennfremur.

Tveir úr íslenska hópnum eru í einangrun með staðfest smit. Umfangsmiklar skimanir hófust eftir að einn úr pólska hópnum greindist með COVID-19 en Pólland, Ísland, Malta og Rúmenía eru öll á sama hótelinu.

Jói greindi frá stöðunni á Instastory í morgun. Hann er ekki veikur en skiljanlega í áfalli.
Fyrri greinÁhyggjur af hraðakstri í Hveragerði
Næsta greinNú lágu Þórsarar í því