„Ég stend ráðalaus úti í polli“

Allt er á floti á Selfossi en gríðarlegar rigningarskúrir hefur gert í dag og er hluti tjaldsvæðisins í bænum á floti.

Mikill gestafjöldi er á Selfossi í dag þar sem bæjarhátíðin Sumar á Selfossi fer fram en auk þess er mikið af fjölskyldufólki gestkomandi vegna Olísmótsins í knattspyrnu. Mikið rigndi í nótt og í morgun á Suðurlandi og eftir hádegi hefur gert gríðarlegar skúrir.

„Ég stend ráðalaus úti í polli og spái í hvað hægt er að gera. Það eru auðvitað allir hundblautir hérna en fólk tekur þessu með jafnaðargeði og hefur ekkert verið að yfirgefa svæðið. Það er hægt að færa sig til hér á svæðinu en það er stór hluti hér á floti og virðist ekkert drena niður,“ sagði Jón Jóhannsson, tjaldvörður, í samtali við sunnlenska.is en í gærkvöldi voru um 200 fullorðnir gestir á svæðinu.

„Við vorum að spá í hvort við gætum sett einhverjar dælur á þetta en það er óvíst að það takist. Á milli skúra kemur glampandi sól og blíða en svo koma þvílíkar skúrir aftur. Það er spurning hvernig þetta endar eiginlega,“ sagði Jón léttur að lokum.