„Ég missti vin í bílslysi

„Við ákváðum að heiðra minningu hans með því að vera alltaf í bílbelti sjálfir," segir Hilmar Tryggvi Finnsson, tvítugur piltur frá Hvolsvelli.

Hilmar Tryggvi missti vin sinn fyrir skömmu í hörmulegu bílslysi. Þá lést Ólafur Oddur Marteinsson eftir að bifreið sem hann ók hafnaði utan vegar og valt. Ólafur Oddur var ekki í bílbelti. Hilmar segist ekki geta fullyrt um það, en ýmislegt bendir til þess að bílbeltið hefði getað bjargað lífi Ólafs.

Hilmar og félagar hans voru eðlilega harmi slegnir yfir andláti félaga síns eins og samfélagið allt á Hvolsvelli. Þeir félagar gáfu þá hvorum öðrum loforð um að þeir skyldu ávallt aka með bílbeltin spennt.

„Enda eru þau þarna, og það þarf að nota þau,“ segir Hilmar Tryggvi í samtali við visir.is og bætir við: „En mér finnst persónulega sorglegt hversu fáir nota í raun beltin.“

Hilmar ákvað því að taka skrefið lengra og hannaði límmiða til þess að líma í afturrúðu bílsins. Skilaboðin eru sterk, enda persónuleg orðsending til ökumannsins fyrir aftan bifreiðina. Þar stendur einfaldlega: „Ég missti vin í bílslysi. Notum bílbeltin.“

Hilmar Tryggvi segist hafa tekið eftir tveimur ökumönnum sem óku á eftir honum sem spenntu á sig beltin þegar þeir óku á eftir honum. „Svo hef ég líka verið stoppaður og fólk hrósað mér fyrir framtakið,“ segir Hilmar en það er óhætt að segja að framtakið hafi vakið athygli í umferðinni.

„Það er náttúrulega átakanlegt að missa einhvern í umferðinni og það er ágætt að nýta sér það og minna fólk á að nota beltin,“ segir Hilmar.

Auk Hilmars eru þrír félagar hans með límmiða í afturrúðunum. Hann segist hafa fundið fyrir óvæntri eftirspurn eftir miðunum sem Hilmar hannar sjálfur og lætur prenta fyrir sig.

Ef einhver hefur áhuga á að nálgast límmiðana þá er hægt að senda Hilmari Tryggva póst á netfangið hilmartryggvi@gmail.com.

VÍSIR greindi frá þessu

Fyrri grein„Eyjafjallajökull spennandi fyrirbæri”
Næsta greinTvær ferðir í viku á Flúðir