„Við erum bara algjörlega orðlaus yfir því og full þakklætis fyrir þennan heiður. Það er gaman að fólk horfi svona á okkur, og ég verð eiginlega bara meyr við þessi tíðindi því þetta ár var okkur mjög erfitt andlega. Við þrífumst ekki á dauðsföllum og tökum þau mjög nærri okkur,“ segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu. Lesendur sunnlenska.is kusu liðsmenn Brunavarna Árnessýslu Sunnlendinga ársins 2018 í afgerandi vefkosningu. „Ég vona svo sannarlega að við getum haldið áfram að standa undir þessum væntingum samfélagsins og getum þjónað fólki áfram eins og við höfum gert,“ segir Pétur.

Hann segir að árið 2018 hafi verið umfangsmikið hjá Brunavörnum Árnessýslu þar sem flest útköllin snúa að umferðinni á þjóðvegum sýslunnar. En eldsútköllin voru einnig mörg og eitt það erfiðasta var á Kirkjuvegi 18 á Selfossi í lok október þar sem karl og kona fórust í eldsvoða.

„Það urðu stórir brunar á árinu, til dæmis bruninn í Hellisheiðarvirkjun í janúar, þar sem tókst að bjarga milljarða verðmætum, sem er giftursamlegt og gott. Síðan var mjög merkilegur bruni á Þingvöllum þar sem brann tignarlegt sumarhús á mjög grónu svæði með allt að 20 metra háum trjágróðri í kring. Það sem varð okkur til happs þar var að það var svo blautt að það náði sér ekki af stað en þar hefðum við getað verið að horfa á meiriháttar gróðureld. Þar spilaði allt með okkur. En hvað slökkvistarf varðar þá var það þetta virkilega erfiða útkall sem var bruninn á Kirkjuveginum. Það reyndi virkilega mikið á alla sem að því komu, hvort sem það voru slökkviliðsmenn eða aðstandendur þeirra sem þar áttu í hlut. Það má segja, ef við lítum á tilfinningalega úrvinnslu, þá er þetta eitt af verri útköllum sem við höfum fengið. Við förum í ofsalega mikið af umferðarslysum, en þau eru bara ekki eins myndræn. Nú er ég ekki að gera lítið úr brunanum, en tilfinningaleg úrvinnsla manna eftir bílslys er alveg jafn hræðileg, því þar ertu oft á tíðum að eiga við mikið slasað fólk og oft látið fólk. Eðlilega fær það ekki sömu umfjöllun, og þarf þess ekki, en umferðarslys valda ekki síður álagi á slökkviliðsmenn,“ segir Pétur.

Eldurinn í Hellisheiðarvikjun 12. janúar. sunnlenska.is/VA

„Við þurfum að hafa sérfræðinga allstaðar“
Slökkviliðsstjórinn segir að árið 2018 þyngra en áður hjá Brunavörnum Árnessýslu, hvað alvarleg umferðarslys varðar.

„Það er ekki alltaf sem við komum að alvarlegum slysum því það þarf ekki alltaf að klippa fólk út, oft á tíðum leysa sjúkraflutningar og lögregla mál sem við hefðum annars farið í. En þetta er búið að vera talsverður tollur af mannslífum í slysum sem við höfum komið að. Við erum með sýslu sem er alveg óhemju mikil umferð í, á vegum sem eru kannski ekki hannaðir til þess að bera þessa miklu umferð. Árið 2017 fóru 3,2 milljónir bíla eftir veginum undir Ingólfsfjalli, sem var 400 þúsund bíla fjölgun frá árinu áður. Það sem við erum alltaf svo hrædd við hérna er þegar akbrautir eru ekki aðskildar og við erum að sjá svo agaleg slys þar sem bílar lenda framan á hvor öðrum. Það gjörbreyttist til dæmis á Hellisheiði þegar víravegriðið var sett upp, þó að margir séu á móti því, þá fögnum við því við sjáum ekki lengur þessi ægilegu slys á heiðinni. En umferðin er erfið fyrir okkur og þetta eru mjög tæknileg útköll. Þú lendir í alvarlegu umferðarslysi, þar sem líkami þinn er illa farinn. Þú ferð á sjúkrahús þar sem tekur á móti þér sérfræðingateymi sem er kannski búið að eyða tíu árum í skóla til þess að tækla líkama þinn. Viljum við að frumvinnan sé eitthvað minna tæknileg vinna sem fer fram þar við að vernda líkama þinn og koma honum í þessar sérfræðihendur? Við þurfum að hafa sérfræðinga allstaðar, það er hluti af því að við æfum svona ofboðslega mikið, því við viljum skila fólkinu eins heilu og við getum undir læknishendur,“ segir Pétur en klippibúnaður er til staðar á öllum slökkvistöðvunum sjö í sýslunni.

„Ég verð að fá að hæla sveitarstjórnarmönnum í Árnessýslu, því þeir hafa sýnt starfseminni mikinn skilning. Auðvitað þarf að réttlæta öll fjárútlát og það er bara eðlilegt með opinbert fé, en þennan búnað höfum við getað endurnýjað reglulega og erum með mjög góðan klippibúnað á öllum stöðum. Við erum heilt yfir með mjög góðan búnað, til dæmis erum við með yngsta slökkvibílaflota landsins. Þar búum við mjög vel. Okkur vantar nýjan körfubíl, hann er orðinn tilfinnanlega gamall, en hann er á fjárhagsáætlun og kemur vonandi á þarnæsta ári. Þetta eru ofboðslega dýr tæki, svona körfubíll kostar vel yfir 100 milljónir króna.“

Árekstur og klippuvinna á Eyravegi í maí. Ljósmynd/BÁ

„Kaffistofuumræðurnar verða alveg frábærar“
Brunavarnir Árnessýslu eru hlutastarfandi slökkvilið, sem þýðir að ekki er vakt á slökkvistöðinni, heldur stökkva menn af stað frá dagvinnu sinni þegar kallið kemur. Sjö slökkvistöðvar eru í Árnessýslu og 120 hlutastarfandi slökkviliðsmenn. Pétur segir að það hafi mikla kosti, en líka ákveðið flækjustig að vera hlutastarfandi slökkviliðsmaður.

„Við höfum oft talað um manninn sem einbeitir sér að sínu aðalstarfi, til dæmis að reka verslun. Hann er að velta fyrir sér hvað hann þarf að panta inn fyrir næstu viku, og áður en hann veit af þá er hann kominn eitthvað út á vettvang, í óvarðar aðstæður, annað hvort að berjast við eld í húsi og leggja sjálfan sig í lífshættu, eða eiga við erfitt klippuslys þar sem mannslíf er í hættu, og hans velferð og sálarlíf í hættu. Síðan, áður en hann veit af, þá er hann kominn aftur inn í verslunina sína að klára pöntunina. Þannig að öll úrvinnsla verður flóknari fyrir menn, sérstaklega ef við horfum á sálarhlutann. En einn af risakostunum við hlutastarfandi lið er að þú ert með þverskurð samfélagsins. Þú ert með húsasmíðameistarann, læknirinn og lögfræðinginn, bóndann og vörubílstjórann og alla þessa flottu fagmenn á ýmsum sviðum. Þannig að þekkingin verður alveg svakaleg og kaffistofuumræðurnar verða alveg frábærar,“ segir Pétur og bætir við að reynt sé að halda eins vel og hægt sé utan um sálarlega þáttinn.

„Við erum með samning við sálfræðiþjónustu og vísum mönnum svo sannarlega þangað og hvetjum menn til að leita sér hjálpar. Við höldum viðrunarfundi þar sem við bendum mönnum á að það sé gott að fara og ræða við sérfræðinga til þess að losa um tilfinningarnar. Það sem bjargar okkur öllum sem manneskjum er að ræða um hlutina, ekki byrgja þá inni. Síðan erum við með alveg gríðarlega metnaðarfullt þjálfunarprógramm. Við erum að bjóða upp á um og yfir 90 æfingar á ári þar sem við skikkum menn í ákveðinn fjölda, en þér sem slökkviliðsmanni er heimilt að fara á allar þessar æfingar og fá laun fyrir þær. Þannig að ef þú hefur tíma og áhuga þá getur þú orðið alveg ofboðslega fær fagmaður. Við viljum meina að Brunavarnir Árnessýslu séu fullskipaðar gríðarlegum fagmönnum. Við æfum mjög mikið og ég held að dæmin sanni hversu gott slökkvilið þetta er.“

Bruninn á Kirkjuvegi 18 þann 31. október. sunnlenska.is/Jóhanna SH

„Það er ekki launanna vegna“
Að sögn Péturs komu um 50 manns sem komu að útkallinu á Kirkjuveginum á einn eða annan hátt, en mikil vinna fór einnig fram utan brunavettvangsins.

„Það er líka heilmikil bakvinna, sem fólk áttar sig kannski ekki á. Það var gríðarlega kalt þarna og við breyttum um fasa þegar við fórum í það að vernda rannsóknarhagsmuni. Þar með varð vettvangurinn mikið lengri en hann hefði annars verið. Og þá eru menn auðvitað lengur á staðnum að berjast við eldinn, rennandi blautir því að við vorum að berjast við asbest líka. Og menn komu hérna inn í Björgunarmiðstöðina, þessir flottu menn, rennandi blautir og kaldir inn að beini. Þar er heilmikið starf inni á stöðinni þar sem þarf að græja nýjan búnað og annað. Þeir taka eldgallann sinn og setja hann til hliðar, fara niður í gufubað til þess að ná einhverjum hita í kroppinn aftur, fara í þurr innri föt og blaut ytri föt aftur og fara svo aftur út að vinna. Bara til þess að ná lífi í kroppinn og geta haldið áfram. Menn leggja ofsalega mikið á sig í þessu. Það er ekki launanna vegna, það er bara skyldurækni við samfélagið,“ segir Pétur að lokum.

Slökkviliðsmenn á æfingu. Ljósmynd/BÁ
Fyrri greinÞórsarar létu toppliðið svitna
Næsta greinHlynur kominn heim