„Ég get loksins labbað hringinn í kringum stólinn“

„Ég er bara rosalega bjartsýn á þetta. Maður er að komast út úr skúrnum og er að koma sér fyrir nýjum stað,“ segir Berglind Hafsteinsdóttir, húsgagnabólstrari á Selfossi, en fyrirtæki hennar, Bólsturlist, hefur nú flutt í stærra og betra húsnæði að Gagnheiði 70 á Selfossi.

„Mig langar til að halda áfram við þetta fag en það var orðið frekar erfitt í lítilli vinnuaðstöðu í bílskúrnum, og svo verður kallinn frekar ánægður þar sem að hann fær nú loksins allan skúrinn. Ég er búin að sérhæfa mig í antikbólstrun en það eru ekki allir bólstrarar sem taka að sér antikbólstrun. Eftir 15-20 ár verður hægt að telja á fingrum annarrar handar hvað það kunna þetta margir á Íslandi, að binda upp á gamla mátann. Þetta er allt gert í höndunum, engar vélar koma að og engum hnútum í bindingunni breytt,“ segir Berglind.

Berglind á ekki langt að sækja bólstrarahæfileikana en faðir hennar er Hafsteinn Sigurbjarnason, bólstrari í Kópavogi, sem rak um tíma HS bólstrun á Selfossi. Þegar Berglind var sextán ára ákvað faðir hennar að flytja á Selfoss.

„Það kom fyrirspurn í Meistarafélag bólstrara um hvort það gæti einhver tekið við bólsturverkstæði sem var á Kirkjuveginum. Pabbi sló til, enda alltaf langað út á land og í kjölfarið dró hann mig með sér. Ég byrja semsagt minn feril hér á Selfossi. En svo bara gekk þetta ekkert, mamma vildi ekki flytja og verkefnunum fjölgaði í Reykjavík og við vorum farin að keyra mikið á milli,“ segir Berglind.

Hafsteinn flutti þá í Kópavoginn og Berglind hélt áfram að vinna hjá honum. „Pabbi réð svo til sín algjöran snilling í antikbólstrun, hann Halldór Jónsson. Ég var því í raun með tvo meistara til að kenna mér. Pabbi var mikið í bílsætaklæðningum, skrifborðstólaviðgerðum og almennri bólstrun og Dóri aftur á móti í antikinu,“ segir Berglind.


Fyrir og eftir Margir glæsilegir stólar hafa öðlast nýtt líf eftir að Berglind hefur farið höndum um þá.

Selfoss er hálfgerð Danmörk
Berglind hafði hug á að fara í Iðnskólann og klára námið en þá rakst hún allstaðar á veggi þar sem það hafði ekki verið nemi í bólstrun í átján ár í skólanum og skólinn vissi ekkert hvaða fög Berglind átti að fara í þar sem námsskráin var dottin út.

„Ég var komin þarna í lita- og formfræði og fag- og grunnteikningar með hinum og þessum. Þetta náttúrlega gekk ekki þannig að pabbi, sem var formaður Meistarafélags bólstrara fór í það ásamt Menntafélagi byggingariðnaðarins að endurvekja námsskránna. Það var fundinn skóli erlendis fyrir okkur nemana og það mátti náttúrlega ekki vera neitt minna en flottasti iðnskólinn á Norðurlöndunum, Skive Tekniske Skole í Danmörku,“ segir Berglind sem fór 19 ára til Danmerkur ásamt öðrum íslenskum nema.

Berglind útskrifast árið 2001 og vann í kjölfarið í fimm ár hjá pabba sínum. „En svo langaði mig að gera eitthvað annað. Selfoss togaði alltaf í mig enda hafði ekki verið bólstari hérna allan þennan tíma eftir að við fórum aftur í bæinn,“ segir Berglind. „Svo er frábært að vera með börn hérna. Þetta er hálfgerð Danmörk líka, allt slétt og maður fer allt á hjólinu. Maður sendir bara krakkana á hjólinu hvert sem er yfir sumartímann.“

„Núna get ég ekkert stolist út í skúr“
Berglind og eiginmaður hennar keyptu sér einbýlishús með bílskúr á Selfossi og Berglind opnaði fyrirtækið Bólsturlist í skúrnum. „Þegar ég flutti hingað þá var ég ólétt af dóttur minni og svo byrjaði ég að dúlla við þetta fljótlega eftir að ég var búin að eiga. Manni klæjar alltaf í puttana ef maður er með bakteríuna,“ útskýrir Berglind sem notaði iðulega tímann til að bólstra þegar dóttir hennar var sofandi út í vagni.

Berglind segist hafa fundið fyrir þörf fyrir þessa þjónustu á Selfossi og ákvað því að stækka við sig. „Ég finn ekkert nema jákvætt. Ég hef reyndar verið skömmuð fyrir að hafa ekki verið að auglýsa mig, þar sem að fólk og fyrirtæki hafa brunað til Reykjavíkur með húsgögn í bólstrun. Ég er voða þakklát fyrir það að ef fólk veit af mér þá er það ekkert að fara til Reykjavíkur. Enda er grasið ekkert grænna hinu megin, þegar það getur fengið sömu þjónustu og sama eða jafnvel betra verð hérna. Það er líka svolítið fast í mér að vilja versla í heimabyggð og styrkja þá sem eru hér.“


Fyrir og eftir Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þetta sé sami stóllinn.

Berglind segir að það muni breyta öllu fyrir hana að flytja úr skúrnum og í stærra húsnæði. „Ég get loksins labbað hringinn í kringum stólinn í staðinn fyrir að færa hann alltaf fram og til baka,“ segir hún og hlær. „Og líka það að ég get verið að vinna í fleiri verkefnum í einu. Plús það að nú er ég loksins að „fara í vinnuna“ ekki bara út í skúr, þó svo að það hafi verið voða þægilegt og algjör forréttindi að geta verið heima þegar börnin koma úr skólanum. Núna get ég ekkert stolist út í skúr á kvöldin þegar það er eitthvað leiðinlegt í sjónvarpinu,“ segir Berglind og hlær.

Ef vel gengur og ef það verður nóg að gera segir Berglind að það komi vel til greina að taka að sér nema. „Það er svolítið mitt að viðhalda faginu. Síðan 1980 hafa einungis verið tíu nemar, með mér og bróður mínum meðtöldum,“ segir Berglind og bætir því við að það séu aðeins tvær konur á öllu landinu sem eiga og reka bólstursverkstæði. „Þær hafa nokkrar lært þetta og í fyrra útskrifaðist ein kona og svo er önnur að læra núna.“

Traktorssæti í henglum
Berglind segir að það sé mjög mikil vakning meðal fólks að láta bólstra gömul húsgögn í staðinn fyrir að kaupa sér ný. „Kreppan hafði góð og slæm áhrif en fólk er farið að halda betur í sitt og hugsa betur um hlutina. Það er rosalega mikið tilfinninglegt gildi í antikhúsgögnum og gaman að gera þau upp. Ég man eftir því núna fyrir jólin, þá kom kona til mín með antikstól sem ég tók í gegn fyrir hana. Þegar hún sá svo stólinn aftur var hún alveg með tárin í augunum því að þetta var fyrsta húsgagnið sem afi hennar eignaðist. Hún var rosalega ánægð með hann og þetta finnst mér alveg frábært.“

Verkefni Berglindar eru ansi fjölbreytt. „Ég er búin að fá ágætan skóla í bílsætaviðgerðum, einnig er ég mikið í því að sauma utanum dýnur í t.d fellihýsi og í sumarbústaðina hér í kring ásamt allri almennri bólstrun. Það er líka voða gaman þegar bændurnir koma með handónýtt traktorsæti, alveg í henglum og spyrja mig hvort ég geti lagað þetta,“ segir Berglind að lokum og hlær.

Bólsturlist á Facebook

Fyrri greinHSu og fangelsin semja um heilbrigðisþjónustu
Næsta greinVilja tvöföldun Suðurlandsvegar í skilyrðislausan forgang