„Ég fæddist til að vera hjúkrunarfræðingur“

Heiða Pálrún Leifsdóttir. sunnlenska.is/Lilja Björk Sæland

Heiða Pálrún Leifsdóttir, blómabóndi á Espiflöt í Biskupstungum, er ein þeirra fjölmörgu sem skráði sig í bakvarðarsveit heilbrigðisstarfsfólks vegna útbreiðslu COVID-19.

„Ég var að horfa á fréttamannafund sem að þetta frábæra fólk  – Víðir, Þórólfur og Alma – halda fyrir okkur landsmenn á degi hverjum og þar biðlaði Alma til heilbrigðisstarfsfólks að skrá sig í bakvarðasveitina. Ég opnaði tölvuna strax á meðan að á fundinum stóð og skráði mig,“ segir Heiða í samtali við sunnlenska.is.

„Það var hægt að skrá sig til mismunandi starfa og meðal annars hvort maður treysti sér í klínískt starf á deild með COVID sjúklingum. Ég er ung og hraust og ekki með neina áhættuþætti og fannst ég því geta gengið inn hvar sem þörfin væri mest,“ segir Heiða.

Heiða segir að það hafi ekki liðið nema rúm vika frá því að hún skráði sig á listann og þar til hún fékk símhringingu þar sem teknar voru frekari upplýsingar. „Ég var spurð nánar út í hvenær ég gæti hafið störf og hvar ég væri til í að vinna. Daginn eftir var komið boð um að koma til starfa á A-6 lungnadeild í Fossvogi,“ segir Heiða sem starfaði síðast sem hjúkrunarfræðingur árið 2015. „Þá fór ég í fæðingarorlof og sneri ekki aftur í hjúkrunarstarfið.“

Skemmtilegt og gefandi starf
Sem fyrr segir starfar Heiða allu jafna sem blómabóndi. „Ég er búin að búa á Espiflöt síðan árið 2006 og því verið viðloðandi reksturinn og ræktunina allan þann tíma, mismikið þó þar sem ég hef líka sinnt öðrum störfum. Í dag er ég í fullu starfi við blómabúskapinn.“

Hún segir að það hafi verið góð tilfinning að fá símhringinguna. „Ég segi oft að ég hafi fæðst til að vera hjúkrunarfræðingur, mér finnst það ofboðslega skemmtilegt og gefandi starf. Ég sá fyrir mér að ég gæti komið óþreytt og sterk inn í krefjandi aðstæður,“ segir Heiða.

„Ég fékk frábærar móttökur á LSH, allir voru svo þakklátir og ánægðir. Mér sýnist líka á öllu að ég sé að koma inn á frábæra deild með góðu fólki. Ég er auðvitað búin að vera í burtu frá faginu í svolítinn tíma en fagmennskan og öryggið er sett framar öllu. Ég er búin að vera á fullu að lesa mér til og horfa á fyrirlestra í námskerfinu þeirra svo að ég sé örugglega með alla verkferla á hreinu. Sjálf hjúkrunin er mér í blóð borin og mér fannst ég pínu vera komin heim.“

Heiða Pálrún á vaktinni í Fossvoginum. Ljósmynd/Heiða Pálrún

Fann strax mikla öryggistilfinningu
Aðspurð hvort eitthvað hafi komið henni á óvart í nýja starfinu segir Heiða svo vera. „Ég finn það svo mikið í samfélaginu hvað margir eru kvíðnir og hræddir og ég var kannski svolítið að fara þangað. En strax eftir fyrstu vakt þá hvarf það eins og dögg fyrir sólu. Þvílíkt teymi sem við eigum í heilbrigðisstarfsfólkinu okkar! Ég fann strax mikla öryggistilfinningu, sá og fann að við erum tilbúin sem ein heild til að takast á við þetta. Það er búið að lyfta grettistaki í að breyta deildum í COVID deildir, búa til nýja verkferla, fræða starfsfólk, og ég gæti lengi haldið áfram. Þetta fólk er svo sannarlega hetjur nútímans,“ segir Heiða.

„Það hefur líka komið mér mikið á óvart hvað mitt framlag hefur fengið mikla athygli, ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það. Mér finnst ég enginn hetja og fannst strax eins og þetta væri algjörlega sjálfsagt mál að þetta skyldi ég gera núna. Ég er þess fullviss um að ég geti gert þetta vel og af öryggi, ég er svona allt eða ekkert týpan og þoli ekki að gera hluti nema gera þá almennilega.“

Gott að finna umhyggjuna í þjóðfélaginu
Heiða segir að fjölskyldan hennar hafi tekið ákvörðun hennar um að snúa aftur til hjúkrunarstarfa vel. „Maðurinn minn og tengdaforeldrar sættust strax á það að ég tæki mér leyfi frá okkar búskap og fyrir það er ég mjög þakklát. Það hefur verið biðlað til okkur sem erum í framlínu að helst fara bara í vinnu og vera svo heima og hitta sem fæsta. Ég fylgi því alveg, fer bara í vinnu og heim. Fjölskyldan mín veit að ég fylgi öllum sóttvarnarreglum í vinnunni og er því ekki smeyk,“ segir Heiða en hún á fjögur börn á aldrinum 5 til 16 ára.

„Ég hef verið að keyra á milli Reykjavíkur og Espiflatar en svo var yndislegt fólk sem bauðst til að lána mér herbergi í bílskúrnum sínum. Þar fæ ég að gista í lengri og erfiðari vaktatörnum. Þau bjuggu svo vel um mig, ég fékk súkkulaði á koddan og allt hvað eina, leið bara eins og prinsessu,“ segir Heiða og bætir því við að það sé gott og fallegt að finna umhyggjuna og mennskuna sem er núna svo sýnileg í þjóðfélaginu.

„Höldum áfram að vera góð við náungann, það er kærleikurinn sem mun koma okkur yfir þetta. Svo VERÐUR fólk að virða samkomubannið til hins ýtrasta, þetta er dauðans alvara!“ segir Heiða að lokum.

Fyrri greinVélsleðaslys í Veiðivötnum
Næsta greinTíu ára drengur lenti undir vélsleða sem hann ók sjálfur