„Ég er bifvélavirkinn, en ekki ökuþórinn“

„Það var nú kannski aldrei nein sérstök köllun hjá mér að fara í nám í píanóstillingum. Róbert, faðir minn, frétti að það væri að verða skortur á píanóstillum á landinu og stakk því upp á þessu einn daginn.“

Þetta segir Halldór Ingi Róbertsson píanóstillir í Þorlákshöfn. Halldór útskrifaðist með diplóma í píanóstillingum og viðgerðum í byrjun júlí í fyrra eftir þriggja ára nám. Eins og er eru færri en tíu píanóstillar starfandi á Íslandi.

„Á þessum tíma stóð ég á tímamótum, var búinn með sveinspróf í húsasmíði og líka stúdentspróf, en vissi í raun ekki hvað mig langaði að taka mér fyrir hendur eftir það. Þegar pabbi stakk upp á þessu ákvað ég að slá til og fór til Englands að skoða skólann og í viðtal,“ segir Halldór.

„Aðalatriðið í starfinu er að maður hafi gott tóneyra, en það er engin nauðsyn að kunna að spila á hljóðfærið. Ég lærði sjálfur á gítar og básúnu, en bæði þessi hljóðfæri eru mjög góð til að æfa tóneyrað. Þannig að tónlistarnám er ekki forsenda fyrir starfinu. Ég er í raun „bifvélavirkinn”, en ekki ökuþórinn, það er ég laga og stilli græjuna svo að hún virki rétt og síðan tekur tónlistarmaðurinn við og spilar á hana,“ segir Halldór.

Skrítin samsetning af fólki
„Ég lærði í bæ sem heitir Newark on Trent og er í mið-Englandi, rétt hjá Nottingham. Fyrsta árið mitt var skólinn staðsettur í mjög lélegu húsnæði, en flutti svo í nýtt húsnæði, sem reyndar hafði áður verið lögreglustöð. Það var nú svolítið skondið að æfa sig að stilla í gömlu fangaklefunum.“

Að sögn Halldórs gekk námið mjög vel. „Það sem er kannski eftirminnilegast við námið, er fólkið sem ég kynntist þarna. Samnemendur mínir voru afskaplega margbreytilegur hópur á öllum aldri og frá mörgum löndum. Mjög skemmtilegur hópur. Það má kannski líka segja að þetta hafi verið skrítnasta samsetning af fólki, sem ég hef á ævinni kynnst. Ég held reyndar að ég hafi átt vel heima þarna með þeim og ég eignaðist mjög góða vini í gegnum námið,“ segir Halldór og bætir því glettinn við að ef til vill sé fólk sem leiti í þetta nám svolítið skrítið.

Ónýt píanó urðu sem ný
„Á fyrsta ári var aðaláherslan lögð á stillingar eftir eyranu og minniháttar viðgerðir. Á öðru ári var haldið áfram með stillingarnar, en okkur var líka úthlutað gömlum, nánast ónýtum píanóum, sem við gerðum upp að öllu leyti, bæði að innan sem utan. Á þriðja ári var áhersla lögð á diplómaprófið í stillingum og einnig fengum við aftur í hendur illa farin hljóðfæri, að þessu sinni flygla, sem við gerðum upp á sama hátt og áður. Reyndar var flygillinn, sem ég og þrír aðrir nemendur gerðum upp, til sýnis við útskriftarathöfnina,“ segir Halldór.

Halldór stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Verið stillt, um leið og hann kom heim úr námi og hefur fyrirtækið gengið vel. „Það má reikna með að það taki tvö til þrjú ár að stofna kúnnahóp, en mér miðar ágætlega í því. Nú nýlega var ég t.d. að fá stillingar í Listaháskóla Íslands,“ segir Halldór.

Mikilvægt að píanó hljómi rétt
Aðspurður afhverju það sé mikilvægt að píanó sé vel stillt, segir Halldór að aðaltriðið sé að það hljómi rétt. „Hversu oft það er stillt fer svolítið eftir notkun, en ég held að svona einu sinni á ári sé raunhæft. Raki og hitabreytingar eru verst fyrir píanó og sérstaklega þarf að passa að sól skíni ekki á það. Margir hafa þær ranghugmyndir að ef píanó er ofnotað eða slegið of fast á nóturnar þá geti það verið vandamál, en sól, raki og hitabreytingar eru í raun aðalvandamálin.“

Halldór segir að það komi fyrir að píanó séu það gömul eða léleg að það sé ekki hægt að stilla þau. „Ef harpan er sprungin borgar sig í fæstum tilfellum að laga það. Það er oft erfið ákvörðun fyrir eigendur gamalla píanóa að ákveða hvort það borgi sig að laga þau.“

Erfitt að láta ættargripi frá sér
„Mörg píanó á Íslandi eru með svokallað „pin block”, sem veldur því að pinnarnir í þeim hafa losnað, sem getur skapað vandamál. Það eru til skammtímalausnir til að bæta úr því, en spurningin er eftir sem áður, hvort það borgar sig að gera við þau? Auðvitað er stundum um ættargripi að ræða, sem erfitt er að láta frá sér og svo eru sum píanó bara svo falleg að maður vill ekki láta þau fara.“

Halldór mælir með því að fólk hafi samband við píanóstilli þegar kaupa á notað píanó. „Ég held að það sé skynsamlegt að hringja í píanóstilli og biðja hann um að skoða það. Það sem þarf að passa sérstaklega upp á er t.d. að hljómbotninn og harpan séu í lagi og að pinnarnir séu allir stífir,“ segir Halldór að lokum.

Facebooksíða Verið stillt

Fyrri greinInga Hlöðvers sýnir í Húsinu á Eyrarbakka
Næsta greinDaða-peysurnar komnar í forsölu