„Ég er bara Daði“

„Ég er ekkert smá sáttur með úrslitin. Þetta Júró-ævintýri hefur verið alveg ótrúlegt og ég hefði ekki getað beðið um meira út úr þessu.“

Þetta segir Daði Freyr Pétursson frá Vörðuholti í Ásahreppi sem sló í gegn á einni nóttu í Söngvakeppni Sjónvarpsins ásamt hljómsveitinni Gagnamagninu með lagið Is This Love?

Eins og alþjóð veit höfnuðu Daði og Gagnamagnið í öðru sæti í keppninni síðastliðið laugardagskvöld. Daði segir að hann hafi alls ekki átt von á því að lenda í öðru sæti.

„Til að byrja með vorum við ekki viss um að fólk myndi fíla þetta yfir höfuð. Við vorum bara að hafa gaman og vonuðumst til að það myndi smita af sér og það tókst bara nokkuð vel.“

Daði segir að markmiðinu hafi heldur betur verið náð þegar kom í ljós að lagið hans var komið í úrslitaeinvígið. „Við vorum bara ánægð og síðasta rennslið af laginu í tveggja manna úrslitunum var með því skemmtilegara sem ég hef gert.“

Svala átti sigurinn skilið
„Það hefði náttúrulega verið mjög gaman að vinna en Svala átti þetta fyllilega skilið. Hún er svo flott að það hálfa væri nóg. Ég hef líka eiginlega engan tíma núna til að vera í Eurovision, ég þarf að klára skólann!“

Síðustu vikur hafa verið mjög annasamar hjá Daða. „Það er búið að vera ótrúlega mikið að gera. Síðan við kepptum fyrst hefur rignt inn skilaboðum á Facebook og víðar sem ég er bara í fullri vinnu núna við að svara. Ég hef ekki fengið mikinn tíma til að slaka á eftir laugardagskvöldið. Nú er ég kominn til Berlínar og hef bara verið að svara skilaboðum síðan ég kom.“

Við vorum bara að hafa gaman
Aðspurður segir Daði að það skemmtilegasta við keppnina hafi verið að vera með vinum sínum í þessu.

„Það var alveg frábært að deila þessari reynslu með fólki sem mér þykir vænt um. Erfiðast var aðallega bara keyrslan að heiman og í bæinn. Ég var líka svo spenntur eftir fyrra kvöldið að ég náði ekkert að sofa, svo ég varð eiginlega bara veikur og rétt náði að halda niðri hálsbólgunni. Núna get ég varla talað,“ segir Daði.

Daði segist óviss hvort hann myndi vilji taka aftur þátt í Söngvakeppninni. „Það er alveg möguleiki, en ég er alls ekki til í það strax og kannski aldrei.“

Vinsældir lagsins komu Daða mjög á óvart. „Ég vissi ekki að það væri hægt að fá svona góðar viðtökur við Júróvisjon lagi. Ég þakka velgengni lagsins aðallega viðhorfinu okkar í þessari keppni. Fólk var að fíla að við vorum bara að hafa gaman.“

99+ vinabeiðnir á Facebook
Það er ekki bara lagið hans Daða sem hefur notið vinsælda – persónulegar vinsældir Daða hafa einnig aukist mikið í kjölfar keppnarinnar. „Það var svolítið erfitt að labba niður Laugaveginn eftir keppni sökum áreitis og þegar ég kom heim stóð 99+ í vinabeiðna-listanum.“

Framundan hjá Daða Frey er að klára BA-námið sitt í hljóðtækni en hann stundar námið við dBs Music Berlin þar sem hann er einnig búsettur. „Það er fullt af spennandi hlutum í gangi sem ég get ekki sagt frá strax því ég er enn að átta mig á hlutunum. Það má búast við tónlist frá mér strax og ég er búinn með skólann býst ég við,“ segir Daði.

Aðspurður hvort hægt sé að fá peysurnar sem hann og Gagnamagnið klæddust í Söngvakeppninni segir Daði að þær verði fáanlegar bráðum. „Þær verða fáanlegar einhvers staðar, ég veit ekki alveg hvar ennþá. Ég veit ekki neitt um neitt, ég er bara Daði.“

Fyrri greinVona að nýir sófar leiði til bættrar umgengni í skólanum
Næsta greinSigríður og Mikael tóku við verðlaunum á Bessastöðum