„Ég ákvað að redda þessu bara sjálf“

Fjóla og Jón Guðmundsson við nýju þreskivélina. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Nýverið festi Fjóla Signý Hannesdóttir, gulrófnabóndi í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi, kaup á fræþreskivél frá Austurríki. Þreskivélin er sú eina sinnar tegundar á landinu og gerir það verkum að Ísland getur áfram verið sjálfbært í gulrófnaræktun.

„Hingað til hefur Sandvíkurrófufræið verið sent í þreskingu í Korpu. Nú er sá búnaður kominn til ára sinna og hefur verið fluttur til Hvanneyrar þar sem hann er ósamsettur og ónothæfur. Enginn annar aðili átti búnað sem hægt væri að nota til að þreskja gulrófufræ,“ segir Fjóla í samtali við sunnlenska.is.

„Ég leitaði margra leiða til þess að geta haldið áfram að þreskja fræið hér á Íslandi en engin niðurstaða fékkst. Ég ákvað því að snúa vörn í sókn og redda þessu bara sjálf. Með nýju vélinni get ég sjálf séð um þreskingu á Sandvíkurrófufræinu og einnig þjónustað aðra sem eru að rækta smátt fræ,“ segir Fjóla.

Fjölmargir bændur reiða sig á Sandvíkurfræið
Fjóla hefur að mestu tekið við rófubúskapnum af föður sínum, Hannesi Jóhannssyni, og ræktar Sandvíkurrófur og Sandvíkurrófufræ. Hannes hefur ræktað Sandvíkurrófur og fræ frá árinu 1970 í Stóru-Sandvík. Fyrirtæki þeirra feðgina nefnist Skálpur en fyrir þá sem ekki vita þá er skálpur er annað orð yfir fræbelg, það er belginn sem geymir fræið.

„Meginmarkmið er að geta haldið fræræktun áfram, þannig að Ísland verði áfram sjálfbært í gulrófum ásamt því að rækta fleiri tegundir af fræi. Allir stóru rófuframleiðendurnir á Íslandi kaupa fræ af Skálpi og þeirra rekstur myndi skaðast gríðarlega ef þeir fengu ekki íslenskt fræ. Þessi fjárfesting stuðlar að því að fræræktun geti farið fram hér á Íslandi og þekking sem er til staðar varðveitist áfram. Það er einnig markmið hjá Skálpi að hefja ræktun á fleiri fæðutegundum, sem ekki eru ræktaðar hér á Íslandi, eftir að þekking og kunnátta hefur skapast á búnaðinn. Við getum líka í framhaldinu þjónustað aðra frumkvöðla og tilraunastarfsemi hvort sem er hjá námsmönnum eða bændum,“ segir Fjóla.

Fjóla og Hannes í frærófuhúsinu í Stóru-Sandvík. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Naut sérfræðiaðstoðar við val á vélinni
„Þar sem ég hef hvorki reynslu né þekkingu á þreskingarvélum fékk ég Jón Guðmundsson, plöntulífeðlisfræðing, til að aðstoða mig við val á réttum búnaði. „Hann hjálpaði mér einnig að setja vélina upp, stilla hana og kenndi mér á hana. Ég hefði verið alveg týnd ef ég hefði ekki fengið aðstoð frá Jóni. Hann hefur áratugareynslu af þreskingu og hefur séð um að þreskja fræið fyrir okkur síðustu ár. Það eru afar fáir á Íslandi sem hafa þekkingu á þessum vélum,“ segir Fjóla.

Fjóla segir að hún hafi þurft að hugsa málið vel og vandlega áður en hún ákvað að fjárfesta í þreskivélinni, en vélin kostaði rúmar þrjár milljónir með öllu komin til landsins. Þá er ekki meðtalinn kostnaður við uppsetningu, kennslu, undirbúningsvinnu og fleira tengt vélinni. Að ógleymdri þróunarvinnu tengdri þreskingu á öðru fræi á Íslandi.

„Þetta er mjög kostnaðarsamt og ekki fjárhagslega hagkvæmt fyrir svona lítið fyrirtæki eins og ég er með í kringum ræktunina. Ég var eiginlega komin á það að fara áratugi aftur í tímann og þreskja fræið í höndunum. En það er gríðarlega vinna fyrir utan að það er aldrei eins góð nýting á fræinu. Þegar ég leitaði leitað ráða hjá hinum og þessum fræðimönnum fékk ég mjög mikla hvatningu og sú jákvæðni gerði það að verkum að ég ákvað að slá til,“ segir Fjóla.

Fjóla þreskir fræ í nýju vélinni. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinGuðlaug skipuð skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu
Næsta greinTvö hestaslys í síðustu viku