„Ég á mjög skilningsríka eiginkonu“

Sverrir Örn Hlöðversson með eina af mörgum beinagrindum sem hann notar til að skreyta fyrir hrekkjavökuna. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Sverrir Örn Hlöðversson, tannlæknir á Selfossi, hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir metnaðarfullar hrekkjavökuskreytingar.

Síðustu daga hefur hann staðið í ströngu að skreyta hús sitt að Kjarrhólum 8 á Selfossi að innan sem utan fyrir hrekkjavökuna sem er í dag.

Á slaginu sex í kvöld opnar hann svo dyrnar fyrir gesti og gangandi þar sem fólki gefst færi á að upplifa hrylling af bestu gerð.

Blaðamaður sunnlenska.is kíkti á Sverri rétt fyrir hádegi í dag þar sem hann var í óða önn að græja skreytingarnar fyrir kvöldið. Sverrir hafði tekið sér frí úr vinnunni til að ná að klára að setja upp allan hryllinginn en auk beingrinda, drauga, dúkka og annarra hefðbundins hryllings setur Sverrir upp mikinn og flókinn ljósabúnað ásamt hljóðkerfi, reykvélum og vindvélum. Já, það er svo sannarlega óhætt að segja að Sverrir hafi metnaðinn í lagi þegar kemur að því að gera hrekkjavökuna sem hryllilegasta.

Var alltaf í nöp í hrekkjavökuna
„Það eru bara nokkur ár síðan ég byrjaði að skreyta fyrir hrekkjavökuna. Mér var alltaf í nöp við hrekkjavökuna. Ég var bara svona áfram Ísland og fannst þetta bara hallærislegt og bjánalegt. En svo eignaðist ég börn og þá breyttist allt. Þá sá ég bara hvað þetta er ógeðslega skemmtilegt,“ segir Sverrir hlæjandi.

Sverrir segir að það sé ekki hægt að gera minna en síðast og svo verður snjóboltinn alltaf stærri og stærri. Skreytingarnar verði því meiri með hverju árinu. Í ár hefur Sverrir svo toppað sjálfan sig enn einu sinni.

Sverrir elskar hrekkjavökuna og leggur mikinn metnað upp úr skreytingunum. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Opnaði húsið þegar eiginkonan var erlendis
Í fyrra ákvað Sverrir í fyrsta sinn að opna heimilið sitt fyrir gangandi vegfarendum og leyfa fólki að upplifa alvöru hrylling. „Það var aðallega vegna þess að konan mín var ekki heima – hún var í útlöndum með vinkonum sínum,“ segir Sverrir og hlær en hann er kvæntur Höllu Marinósdóttur.

„Ég tímdi ekki að setja allt þetta skraut út og láta þetta bara vera úti í hvaða veðri sem er. Þannig að fyrst að Halla var ekki heima þá rústaði ég svolítið stofunni,“ segir Sverrir og hlær. Hann bætir því við að Halla hafi svo þurft að hjálpa honum að taka saman allt skrautið þegar hún kom aftur heim þar sem það er ekki eins manns verk. „Halla sagði ekkert þegar hún kom heim og sá húsið en það komu nokkur tár. Ég á mjög skilningsríka eiginkonu.“

Sverrir er þakklátur eiginkonu sinni fyrir allan skilninginn. „Þó að ég sé hérna að snúast í hringi að setja allt upp þá augljóslega gerir hún mér þetta kleift. Ég gæti ekki bara alltaf verið að leika mér hérna á kvöldin nema væri fyrir hana,“ segir Sverrir og kann augljóslega vel að meta umburðarlyndi eiginkonu sinnar.

Blanda af athyglissýki og hvatvísi
Sverrir segir að hann sé með hugann við hrekkjavökuna allt árið um kring. „Maður er kannski ekki alltaf að undirbúa þetta en ef maður labbar kannski í gegnum Nytjamarkaðinn þá sér maður oft eitthvað sniðugt fyrir hrekkjavökuna.“

Aðspurður út í ástæðuna fyrir þessum gífurlega metnaði fyrir hrekkjavökunni segir Sverrir að hann sé ekki viss. „Þetta er einhver blanda af athyglissýki og smá hvatvísi en svo hefur mér alltaf þótt gaman að fikta og vesenast. Ég var barnið sem tók útvarpið í sundur og setti það saman aftur. Og þetta er bara einhver skrítinn angi af því. Fyrir utan það þá er ég með svona ljósa- og tækjablæti. Þegar allur sá búnaður er til þá þarf ég bara að bæta við hrekkjavöku-propsinu,“ segir Sverrir en þess má geta að hann á um hundrað dúkkur – mis hryllilegar – sem hann notar óspart til að skreyta fyrir hrekkjavökuna.

Sverrir á um hundrað dúkkur, mis hræðilegar. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Lifandi leikarar gera hryllinginn meiri
En af hvaða skreytingu skyldi Sverrir vera stoltastur af? „Mér finnst ógeðslega kúl að það er fullt af uppblásnum gínum sem líta allar eins út og verða allar í eins búning, svartklæddar og með grímu – og allar með eins grímu – en svo er kannski ein af þeim lifandi. Og eltir þig,“ segir Sverrir og hlær dátt.

Sverrir fær góða hjálpa frá vinum sínum til að hræða börn og fullorðna. „Það er yfirdrifið af hlutverkum – ég næ ekkert að manna í allt. Vinir mínir hafa verið að aðstoða mig við að hræða börnin, meðal annars makar þeirra sem áttu einmitt eiginkonur í útlöndum í fyrra. Við ákváðum að vera kvennmannslausir í fyrra og það var svo gaman og þeim dettur ekki í hug að gera eitthvað annað en að koma og aðstoða mig – meira að segja þó að þeir búi í bænum.“

Einn dagur á ári til að hræða börnin
Sem fyrr segir starfar Sverrir sem tannlæknir og sem tannlæknir reynir hann að gera allt til að hræða börnin ekki. „Dagsdaglega í vinnunni erum við að reyna að láta börnunum líða vel og búa til öruggar aðstæður, skapa traust og svona. Þetta er svona eini dagurinn á ári sem ég fæ útrás fyrir hinni hliðinni,“ segir Sverrir og hlær innilega. Hann bætir því við að hann var með pælingar að skreyta tannlæknastofuna sína líka en kunni svo ekki við það. „Ég vil að það sé ennþá öryggisstaður – ég skreyti hana bara krúttlega fyrir jólin.“

Sverrir á tvær stelpur sem þekkja ekkert annað en mjög hryllilega hrekkjavöku. „Það vantar svolítið bremsuna í þær því að þær hafa alist upp við óhefðbundnar aðstæður. Þeim finnst þetta allt geggjað gaman – finnst bara gaman að sjá blóð.“

Draugahúsið hjá Sverri er svo sannarlega hryllilegt. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Allt leyfilegt á hrekkjavökunni
Maðurinn sem hélt einu sinni ekki upp á hrekkjavökuna hefur heldur betur skipt um skoðun. „Það sem er svo ógeðslega fallegt og skemmtilegt við þessa hrekkjavöku er að þú mátt gera það sem þú vilt. Ef þú ætlar til dæmis að taka þátt í jólunum þá er komin svo mikil hefð, straumar og stefnur í því. Þú þarft að setja seríur út í glugga, aðventuljós og þess háttar. En það sem er svo gaman með hrekkjavökuna er að þú gerir bara algjörlega það sem þú vilt. Þú mátt eiginlega allt,“ segir Sverrir að lokum.

Hryllilega draugahúsið verður opið frá 18:00-20:00 í kvöld að Kjarrhólum 8 á Selfossi.

Fyrri grein„Við erum alltaf að búa til einhverja töfra“
Næsta greinHausinn stoppar undir kúnni