„Ég á mjög erfitt með að gera ekki miklar kröfur til mín“

Kristrún Antonsdóttir, fatahönnuður, í eigin hönnun. Ljósmynd: @bykristrun

Hvergerðingurinn Kristrún Rut Antonsdóttir er ef til vill þekktust fyrir frammistöðu sína á fótboltavellinum, þar sem hún hefur gert það gott bæði hérlendis og erlendis, en þessi unga kona er ekki bara fótafim – hún er líka lagin í höndunum.

Síðasta árið hefur Kristrún verið að hanna undir merkinu KRHA þar sem sjálfbærni og umhverfisvitund er í fyrirrúmi.

„Hönnunin mín í hnotskurn snýst um að hanna úr afgangsefnum og garni sem ég get endurnýtt. Til að bæta við, þá sé ég um allt ferlið sjálf, það eru engir milliliðir og þar af leiðandi telst hún vera sjálfbær. Ég hanna út frá eigin höfði og hönnunar stíllinn minn er kreatívur og djarfur,“ segir Kristrún í samtali við sunnlenska.is.

Kristrún segir að mestmegnis byggist hönnun hennar á því frelsi sem hún vill sjá og efla í fatahönnun og stíliseringu. „Það er að segja frelsi að tjá sig í gegnum fatastíl á þann hátt sem heillar mann helst, án þess að pæla í því hvað aðrir hafa um það að segja. Tíska skiptir mig minna máli en stíll og ég reyni að hanna út frá því markmiði að flíkin muni lifa góðu og löngu lífi.“

Saumaskapurinn leikur í höndunum á Kristrúnu. Ljósmynd: @bykristrun

Fékk saumavélina hjá ömmu lánaða
Frá því að Kristrún var lítil stelpa hefur hún verið að hanna og skapa. „Ég var ófeimin við að fá saumavélina hjá ömmu í láni og fá kennslustundir hjá einmitt ömmu eða mömmu. En annars lærði ég mest af því að prófa mig áfram og þá sérstaklega með því að rekja upp gömul föt frá ömmu og sjá hvernig þau voru saumuð saman, hvernig sniðin litu út og svo framvegis.“

En Kristrún er þó ekki alveg sjálflærð hvað varðar fatahönnun, heldur hefur hún lagt stund á fjölbreytt nám tengt þessari ástríðu sinni. „Ég hef tekið grunnnám í fatahönnun í Tækniskólanum og kláraði tvo mánuði í Københavns Mode- og Designskole. Einnig hef ég klárað tveggja ára háskólanám í tískustíliseringu hjá LaSalle College í Montreal í Kanada og er núna að vinna að BA gráðu í textíl hjá Open College of the Arts á Englandi.“

Galið hvað það er framleitt mikið af fötum
Þrátt fyrir að hafa hannað fatnað í fjölmörg ár eru tiltölulega stutt síðan Kristrún byrjaði að hann undir merkinu KRAH. „Ég hef verið að hanna undir merkinu KRHA í rúmlega ár. Ég byrjaði með sér Instagram síðu 2019/2020 sem ég stofnaði til að pósta efni tengdu stíliseringu, þar sem ég var nýútskrifuð en hægt og rólega hefur það mjakast alfarið yfir í fatahönnun.“

Sem fyrr segir er hönnun Kristrúnar bæði umhverfisvæn og sjálfbær, eitthvað sem er henni hjartans mál. „Mér finnst það bara svo galið hvað það er framleitt mikið af fötum og þá óþarflega mikið umfram magn. Þetta er ekki nauðsyn og oftar en ekki fer þetta nánast rakleiðis á haugana. Hinsvegar, þá hef ég gríðarlegan áhuga á fötum og stíliseringu þannig ég á erfitt að slíta mig frá því að hanna og skapa eitthvað nýtt. Þess vegna finnst mér lausnin liggja í því að sjá tækifærin í því sem til er og hvernig sé hægt að gefa fötum og allskonar efnistengdum hlutum nýtt líf. Það má segja að þetta skipti mig mjög miklu máli.“

Ljósmynd: @bykristrun

Myndi missa áhugann ef þetta væri of auðvelt
Einhverjum þætti ef til vill erfitt að vera skapa og hanna innan þröngs ramma hvað varðar efnisval og aðferðir en ekki Kristrúnu. „Mér finnst áskorunin klárlega hjálpa. Ég hef alist upp sem íþróttakona þannig að ég á mjög erfitt með að gera ekki miklar kröfur til mín og hreint út sagt held ég að ég myndi missa áhugan ef ég gerði það ekki,“ segir Kristrún en þess má geta að hún gekk aftur til liðs við Selfoss sumarið 2021 eftir að hafa leikið knattspyrnu víða um Evrópu, þar á meðal á Ítalíu, í Austurríki og Skandinavíu.

„Í sambandi við efnisval þá væri mun auðveldara að hanna úr splunkunýju efni sem ég gat valið alla eiginleika efnisins sjálf, en það er ekki jafn krefjandi. Það sem gefur mér innblásturinn er áskorunin að púsla saman til dæmis afgöngum og efnisbútum á skemmtilegan hátt til að mynda flíkur sem margur á erfitt með að sjá fyrir.“

Hannaði á Bríeti
Söngkonan Bríet klæddist hönnun Kristrúnar nú á haustdögum og hlaut nokkra athygli fyrir. En hvernig kom það til að Bríet klæddist KRHA? „Fyrir ári síðan þá ákvað ég að sækja um á HönnunarMars þar sem mig langaði að sjá hvar ég stæði en einnig til að fara í gegnum ferlið og sjá hvernig þetta virkaði. Nei var svarið en hins vegar hafði ég unnið í skissum fyrir tískusýningu ætlaðri HönnunarMars og mig langaði að gera eitthvað meira með þær. Daginn eftir ákvað ég að senda skilaboð á Bríet, þar sem mér fannst hún fullkominn kandídat þegar kemur að stíl og skapandi fatavali.“

Kristrún segir að Bríet hafi tekið vel í hugmyndina. „Hún var verulega spennt fyrir því að hanna eitthvað sem enginn hefði séð, sem sagt ekki eitthvað sem ég hafði hannað áður, og komumst við að þeirri niðurstöðu að ég myndi sérhanna á hana heklað bútasaums sett og hatt. Hún var einstaklega ánægð með útkomuna, þannig að það gæti vel verið að við hönnum eitthvað skemmtilegt saman í framtíðinni.“

Bríet í hönnun Kristrúnar. Ljósmynd/Bríet

Stór viðurkenning
Viðbrögðin við að Bríet klæddist hönnun frá KRHA létu ekki á sér standa. „Það var ótrúlega skemmtilegt að heyra úr mörgum áttum hversu flott hún væri í þessu en kærast fannst mér að heyra frá henni hversu mikið hún fílar sig í settinu. Eftirspurnin jókst ekki þannig séð en ég tek þessu sem stórri viðurkenningu og stimpil þegar kemur að hönnunninni minni og hvernig ég sé hana þróast í nánustu framtíð.“

„Þegar kemur að sérhönnun fyrir einstaklinginn þá eiga flíkurnar að höfða til eins einstaklings og ekkert endilega almennings. Þetta sett sem ég hannaði fyrir hana er klárlega eitthvað sem hún gengur í en mögulega ekki margmennið. Viðbrögðin voru aldrei megin markmiðið heldur leit ég á þetta sem áskorun í vaxtarferlinu hjá mér sem hönnuð á íslenskum markaði.“

Enn sem komið er þá hannar Kristrún aðeins á konur. „Ég hugsa að eins og er þá sé ég mest að ná til kvenmanna á aldrinum 20-35 ára með þeirri hönnun sem ég hef lagt fram. Hinsvegar, þá langar mig að fara meira yfir í það að sauma sem opnar klárlega hurðina aðeins meira þegar kemur að því að hanna föt fyrir öll kyn. Mér finnst afskaplega gaman að taka við sérpöntunum þar sem einstaklingurinn, óháð kyni, þarf ekki að hafa meira en hugmynd að því sem þeim langar að hanna – það er jafnvel hægt að vinna að þeirri hugmynd í sameiningu.“

Ljósmynd: @bykristrun

Fær innblástur frá myndrænum samfélagsmiðlum
Innblásturinn sækir Kristrún fyrst og fremst til samfélagsmiðla. „Ég á það til að eyða óþarfa miklum tíma á Instagram og Pinterest sem veitir mér oftar en ekki innblástur. En ég á það til að fá innblástur frá efninu eða garninu sjálfu. Jafnvel poppa hugmyndirnar bara upp í daglegu lífi þegar ég sé blóm, buxur, bíl eða bara hvað sem er.“

Kristrún er með allskonar pælingar og framtíðarmarkmið fyrir KRHA. „Það er hellingur af hugmyndum að malla í hausnum á mér og væri ég til í að sjá KRHA taka við fleiri skapandi og krefjandi verkefnum á næstu fimm til tíu árum, en draumurinn væri klárlega að reka eigin hönnunarstúdíó/verslun þar sem ég get einbeitt mér einungis að hönnun,“ segir Kristrún að lokum

Instagram-síða KRHA

Fyrri greinJón Ingi og María sýndu frábæra frammistöðu í Danmörku
Næsta greinJólasveinarnir anna ekki eftirspurn á aðfangadag