Lindex á Selfossi lokar eigi síðar en 28. febrúar næstkomandi en LDX19 og Lindex AB hafa tilkynnt lokun allra Lindex-verslana á Íslandi.
Verslun Lindex opnaði á Selfossi 29. júlí 2021 og var frá upphafi ákaflega vel tekið af heimamönnum og nærsveitungum. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is mun önnur verslun í eigu LDX19 koma í staðinn fyrir Lindex á Selfossi og mun því enginn missa vinnuna sína.
Búin að vera með hjartað í þessu
„Það er alveg skrítið að hætta með Lindex. Maður er búinn að gefa allt í þetta og búin að vera með hjartað í þessu. Þetta eru alveg kaflaskil. Við erum þannig séð búin að vera með Lindex eins og barnið okkar,“ segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, annar eigandi LDX19, í samtali við sunnlenska.is.
Lóa rekur LDX19 ehf. ásamt eiginmanni sínum Alberti Þór Magnússyni en þau reka einnig verslanir Ginu Tricot og barnafataverslanir undir merkjum Emil&Lína, en báðar þessar verslanir eru einnig á Selfossi, nánar tiltekið í Austurgarði við Larsenstræti .
Ákveðin kaflaskil
Verslanir Lindex hafa gengið mjög vel síðan fyrsta verslunin opnaði á Íslandi í nóvember 2011 og hefur verslun Lindex á Selfossi gengið einstaklega vel.
„Ég er ótrúlega þakklát fyrir öll viðskiptin í gegnum árin og hversu trúir viðskiptavinirnir hafa verið okkur. Við vonumst til þess að geta átt áfram viðskipti við okkar viðskiptavini. Við erum ekkert af baki dottin og við erum ekkert hætt í verslunarrekstri. Þetta eru ákveðin kaflaskil og svo kemur nýr dagur.“
„Okkar áhersla hefur verið á starfsfólkið okkar, það eru verðmætin sem við fókusum á. Það er fólkið okkar, það er fjölskyldan okkar. Lindex hefur verið partur af þessu en er það ekki lengur. En svo kemur eitthvað annað, við erum samt áfram fjölskyldan sem er allt fólkið okkar. Það er ekki fólkið sem ég er að skilja við.“

Fær að vera búðarkona áfram
Upphafið að Lindex-ævintýrinu hófst á Selfossi fyrir sautján árum þegar Lóa var í fæðingarorlofi með son sinn, Magnús Val. Þá tók hún eftir því hvað það var lítið úrval af barnafötum á Selfossi og byrjaði með verslunina Emil og Línu og seldi barnaföt í gegnum Facebook. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og eru Lindex-verslanirnar á Íslandi tíu talsins. En þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar og er Lóa bjartsýn á framhaldið.
„Ég er ótrúlega þakklát fyrir þessi ár. Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og ég á ekkert nema góðar minningar frá þessu Lindex-ævintýri. Það er búið að vera yndislegt að standa vaktina í Lindex búðunum, standa fyrir öllum þessum viðburðum, taka á móti öllum þessum viðskiptavinum og mér þykir óendanlega vænt um þá alla.“
„Búðarkonuhjartað í mér elskar að taka á móti viðskiptavinum og ég fæ að vera áfram að vera búðarkona – og ætla mér að vera það áfram. Svo tekur eitthvað annað við og það er bara gangur lífsins. Við erum með Ginu Tricot, Emil&Línu og Mangó, það er alveg nóg að gera,“ segir Lóa að lokum.
Uppfært kl. 18:10
Samkvæmt mbl.is hefur fyrirtækið S4S ehf. undirritað samning við sænska félagið Lindex AB, um að taka við sem umboðsaðili vörumerkisins Lindex á Íslandi og mun félagið taka formlega við sem umboðsaðili Lindex á Íslandi þann 1. mars næstkomandi.

