„Eftirspurn eftir íslensku handverki hefur aukist mikið“

Eygló Aðalsteinsdóttir og Líney Tómasdóttir í Handverksskúrnum á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í apríl síðastliðnum flutti Handverksskúrinn á Selfossi starfsemi sína að Eyrarvegi 17.

„Við fluttum Handverksskúrinn vegna þess að það á að rífa húsnæðið að Eyrarvegi 3 vegna nýja miðbæjarins. Nýja staðsetningin er kannski aðeins út úr miðbæjarkjarnanum en við erum komnar á jarðhæð og með æðislega stóra glugga,“ segir Líney Tómasdóttir, hjá Handverksskúrnum, í samtali við sunnlenska.is.

Líney segir að fólk sé ánægt með nýju staðsetninguna. „Viðtökurnar eru búnar að vera æðislegar og við hlökkum til sumarsins. Við erum átta konur sem seljum okkar handverk og skiptumst á að vinna en umfram allt erum við í góðum félagsskap. Handverkið okkar er mjög fjölbreytt – allskonar lopavörur, ungbarnafatnaður leir, gler, handlitaður lopi, myndlist. Sjón er sögu ríkari,“ segir Líney en Handverksskúrinn hefur verið starfandi síðan sumarið 2010.

Að sögn Líneyjar er íslenskt handverk sívinsælt. „Eftirspurn eftir íslensku handverki hefur aukist mikið og eru lopapeysur, sokkar og vettlingar úr íslensku ullinni alltaf vinsælt. Einnig er gjafavaran alltaf vinsæl hjá okkur; gler, skart, leir, ungbarnavörur og margt fleira,“ segir Líney að lokum.

Fyrri greinVið getum gert betur í Rangárþingi ytra!
Næsta greinOpnunarhátíð á mánudaginn