Eftirleitir í Höfðabrekkuafrétti

Sl. þriðjudag fór átta manna hópur í eftirleitir í Höfðabrekkuafrétti í Mýrdalshreppi. Árangurinn var góður að sögn fjallkóngsins.

„Þetta var góður dagur, við náðum ágætum árangri og veðrið var gott. Þetta var í raun fyrsti góði smaladagurinn í haust hvað veðrið varðar,“ sagði Karl Pálmason, fjallkóngur í Kerlingadal, í samtali við sunnlenska.is.

Höfðabrekkuafréttur er erfiður yfirferðar með hrikalegum giljum og bröttum klettabeltum. Þess vegna er ekki annað í boði en að fara fótgangandi í leitir.

„Þetta er hrikalega erfitt svæði en við erum með fríska menn og góða hunda sem príla þetta,“ segir Karl og bætir við að enn sé vitað um fé á afréttinum.

„Það er mjög lítið eftir, en við vitum um fé þarna og við náum í það þegar gefur.“