Efniskaup í ljósleiðara undir 50 milljónum

Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkti á fundi sínum í dag efniskaup vegna ljósleiðaraverkefnisins í sveitarfélaginu. Áætlað er að kaupa efni fyrir 48 milljónir króna en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 75,6 milljónir króna.

Á fundinum í dag var sveitarstjórn kynnt þau tilboð sem bárust en það voru þrettán tilboð frá níu fyrirtækjum.

Samþykkt var að versla ljósleiðarastrengi og götuskápa og fjarskiptaskápa frá Smith og Norland, ljósleiðararör frá Emtelle, aðvörunarborða og merkihæla frá SET, tengibrunna, tengitunnur og tengihillur frá Lýsir og inntaksbox fyrir tengistaði frá Ískraft.

Sveitarstjórn fól verkefnisstjóra að sannreyna uppgefinn afhendingatíma gagnvart birgjum og í framhaldi af því panta til verksins.