Efndu til keppni og mældu matarsóun í Vallaskóla

Nemendur í 9. bekk Vallaskóla á Selfossi unnu fyrir skömmu að verkefni sem nefnist „Jörðin í hættu“. Einn vinnuhópanna gerði mjög áhugavert verkefni um matarsóun.

„Okkar hópur vann að verkefninu „Geta til aðgerða“ en við efndum til keppni með það að markmiði að vekja nemendur til umhugsunar um matarsóun. Keppnin var með því sniði að eftir að hafa kynnt verkefnið vel voru allar matarleifar hvers árgangs í skólanum viktaðar eftir hádegismat í mötuneytinu í þrjá daga samfellt. Þeir sem sóuðu minnst sigruðu keppnina,“ segir María Ísabella Snorradóttir, nemandi í 9. RS í samtali við sunnlenska.is. Með henni unnu að verkefninu þau Amy Phernambucq, Örn Eysteinn Guðnason og Kristín Ósk Guðmundsdóttir.

„Það gekk ágætlega að fá nemendur til umhugsunar um matarsóun og að fá þá til að hugsa um hversu mikið þeir ætluðu að borða og miða skammtastærð við það. Eftir þrjú hádegi, þar sem allar matarleifar voru vigtaðar, stóðu nemendur 9. bekkjar uppi sem sigurvegarar en 9. bekkur sóaði samanlagt 1,4 kílóum á þessum þremur dögum. Við sem unnum að verkefninu vorum sannarlega stolt af því að árgangurinn okkar hafi sigrað í keppninni,“ bætir María Ísabella við.

Sigurvegararnir, sjötíu nemendur 9. bekkjar, fengu hver og einn að launum gjafabréf í Pylsuvagninn á Selfossi og kleinuhringi frá Krispy Kreme, en fyrirtækin gáfu verðlaunin í keppninni.

Á myndinni sem fylgir fréttinni eru (f.v.) Már Ingólfur Másson, kennari, María Ísabella, Kristín Ósk, Amy, Þorvaldur H, Gunnarsson, skólastjóri, Örn Eysteinn og Inga Guðlaug Jónsdóttir, matráður.

Fyrri greinFjósinu á Stóra-Ármóti breytt
Næsta greinTók fram úr lögreglunni og var sektaður fyrir hraðakstur