Efla viðbragð og upplýsingagjöf vegna mögulegrar flóðahættu

Ísstíflan við Efri-Laugardælaeyju hefur hlaðið töluvert upp á sig í gær og í dag. Ljósmynd/Einar Sindri Ólafsson

Almannavarnaráð Árborgar fundaði í morgun ásamt starfsmönnum áhaldshúss Árborgar, framkvæmda- og veitusviði og viðbragðsaðilum vegna mögulegrar flóðahættu í Ölfusá.

„Efni fundarins var að teikna upp viðbragð við mögulegum flóðum í Ölfusá, sem og upplýsingagjöf sem allir voru sammála um að skipti íbúa miklu máli,“ sagði Kjartan Björnsson, formaður almannavarnaráðs.

„Fundurinn var undirbúningur og samtal til að samhæfa viðbrögð en ekki vekja ótta íbúa um yfirvofandi hættu en vissulega er óvissa til staðar,“ segir Kjartan en mikill ís er á ánni, frá Selfossi og niður að sjó og ísstífla við Efri-Laugardælaeyju.

Hlánar í vikulokin
Upplýsingar munu í framhaldinu verða veittar á heimasíðu sveitarfélagsins auk þess sem íbúar eru hvattir til að beita forvörnum í sínu nærumhverfi eins og að losa um niðurföll og losa snjó af þökum og hreinsa klakamyndun af þakköntum sem gætu valdið slysi.

Hlýna mun í veðri í vikulokin og ef flóð yrði þá eru íbúar nálægt ánni hvattir til þess að eiga sandpoka til að setja á niðurföll svo dæmi séu nefnd.

„Staðan verður tekin aftur á fimmtudag þegar betri sýn verður á veður og veðurspá fyrir föstudag og laugardag. Það kom fram tillaga á fundinum að setja upp tvær vefmyndavélar og er nú verið að kanna möguleika á því út frá staðsetningu og kostnaði. Þær myndu nýtast vel bæði viðbragsaðilum og íbúum,“ sagði Kjartan að lokum.

Fyrri greinFræðsla um hinsegin málfar og nýyrði
Næsta greinAlmannavarnanefnd fundaði vegna föstudagslægðarinnar