Efla og Völuberg annast jarðfræðiþjónustu fyrir Eyjagöng

Núna er gert ráð fyrir að Vestmannaeyjagöngin opnist í Hánni sunnan við Sprönguna. Hringtorg myndi tengja jarðgöngin við gatnakerfi bæjarins. Mynd/Eyjagöng

Eyjagöng hafa náð mikilvægum áfanga í undirbúningsferli jarðganga á milli lands og Eyja með því að ganga til samninga við verkfræðistofuna Eflu og verkfræði- og jarðfræðistofuna Völuberg. Fyrirtækin munu sameiginlega annast jarðfræðiþjónustu vegna kjarnaborana og fýsileikamats verkefnisins.

Ákvörðunin um samstarfið var tekin eftir vandað valferli og í nánu samráði við Vegagerðina. Það var samdóma álit allra aðila að sameiginlegt tilboð Eflu og Völubergs væri það ákjósanlegasta fyrir verkefnið, en fyrirtækin sýndu fram á framúrskarandi skilning á þeim flóknu áskorunum sem viðfangsefnið felur í sér.

Traustur grunnur að áframhaldandi rannsóknarvinnu
„Þetta er stórt skref fyrir Eyjagöng. Við erum að fá til liðs við okkur aðila sem skilja mikilvægi þessa verkefnis fyrir samfélagið,“ segir Haraldur Pálsson framkvæmdastjóri Eyjaganga. „Samstarfið við Eflu og Völuberg, með stuðningi og ráðgjöf frá Vegagerðinni, tryggir að farið verði í kjarnaboranir og mat á fýsileika af fyllstu fagmennsku og nákvæmni.“

Næstu skref fela í sér undirbúning kjarnaborana sem munu veita dýrmæta innsýn í jarðlagaskipan og forsendur gangagerðarinnar. Með þessum samningi er lagður traustur grunnur að áframhaldandi rannsóknarvinnu sem mun skera úr um næstu skref þessarar metnaðarfullu samgöngubóta.

Fyrri greinBerjadraumur
Næsta greinToppliðið fór létt með botnliðið