„Ef Guð væri á Facebook”

Landsmóti æskulýðsfélaga kirkjunnar lauk með messu í Selfosskirkju í dag. Á mótinu voru 500 unglingar og leiðtogar alls staðar að af landinu.

Fjölbreytt dagskrá var í boði fyrir hópinn sem meðal annars stóð í Kjarnanum á laugardag og safnaði peningum til að styðja við jafnaldra sína í Japan.

Í prédikun sinni í messunni í dag hrósaði sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur í Selfosskirkju, krökkunum. Hann sagði meðal annars að „ef Guð væri á Facebook þá væri statusinn: Ég elska þig og þegar þú lagðir þitt að mörkum við munaðarlausu börnin og unglingana í Japan þá komstu við hjartað í mér.“

Rakel Brynjólfsdóttir, landsmótsstjóri, var ánægð að loknu móti. „Þetta hefur verið yndisleg helgi. Ég hef ekki tölu á þeim skiptum þar sem ég táraðist af gleði yfir þessum frábæru unglingum sem sýndu það og sönnuðu á mótinu að þau hafa svo sannarlega hjörtu úr gulli. Ég er óendanlega þakklát og stolt af þessum krökkum.“

Fyrri greinHamar tapaði í Hólminum
Næsta greinMikið lagt inn af mjólk