„Ef þetta er rétt þá er það merkilegt, ef ekki þá er þetta skemmtilegt“

Leitin að hinum heilaga kaleik á Skipholtskróki í Hrunamannahreppi mun halda áfram í sumar en hópur manna hefur leitað kaleiksins frá árinu 2004.

Þórarinn Þórarinsson arkitekt, Ítalinn Giancarlo Gianazza og félagar hafa fengið leyfi til áframhaldandi rannsókna á Skipholtskróki á Kili en leit þeirra að því sem margir segja vera leitina að hinum heilaga kaleik hefur staðið yfir síðan 2004 og hafa þeir leitað öll sumrin nema í fyrra.

Leitin á Skipholtskróki er Þórarni mikið hugðarefni en hún byggist á vísbendingum sem Gianazza hefur lesið úr fornum heimildum eftir aðila á borð við Dante Alighieri og Leonardo da Vinci. Þórarinn segir leiðangursmenn hafa mjög gaman af leitinni og að ef þetta sé rétt þá er það merkilegt en ef ekki þá er þetta skemmtilegt ævintýri.

Hann segir það ónákvæmni að kalla þetta leit að hinum heilaga kaleik þó benda megi á að enginn viti hvernig hann líti út og sennilega sé hann allegóría fyrir eitthvað allt annað en það sem við höldum.

Rannsóknarhópurinn veit þó heldur ekki nákvæmlega hvað það er sem þeir eru að leita að en þetta var líklega nógu verðmætt til þess að fela á afviknum stað.

Þeir telja mögulegt að um sé að ræða eitthvað sem kristinn söfnuður, Chatars, sem var í S-Frakklandi hafi komið undan á 13. öld þegar honum var nærri útrýmt í trúarofsóknum.

Vísbendingarnar sem rannsóknarhópurinn styðst við séu það sannfærandi að þeir vilji halda áfram með rannsóknirnar.