Eðlileg virkni undir Ingólfsfjalli

Ingólfsfjall. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Jörð heldur áfram að skjálfa undir Ingólfsfjalli en nokkrir litlir skjálftar urðu þar í morgun. Stærsti skjálftinn í þessari hrinu var af stærðinni 3,0, klukkan 4:16 aðfaranótt fimmtudags.

Stærsti skjálftinn fannst vel á Selfossi, í Hveragerði og Grímsnesinu. Upptök skjálftanna eru í norðurhlíðum fjallsins, austan við Leirdali en næsti bær er Litli-Háls, í um 1,5 km fjarlægð.

„Þessir skjálftar eru ósköp eðlileg virkni á þessum slóðum, enda á Suðurlandsbrotabeltinu, sem er eitt virkasta skjálftasvæði landsins. Skjálftarnir eru á svokölluðu vensluðu misgengi, þannig þeir raða sér upp á sprungu sem liggur SV-NA,“ sagði Einar Sindri Ólafsson, jarðfræðingur, hjá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands, í snörpu viðtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinNorðaustan stormur á nýársdag
Næsta greinGleðilegt nýtt ár!