Eden lóðin skipulögð fyrir íbúðir og fleira

Bæjarráð Hveragerðis samþykkti á síðasta fundi sínum að fela skipulags- og mannvirkjanefnd að hefja nú þegar vinnu við breytingu á skipulagi Eden lóðarinnar með það að markmiði að þar megi byggja íbúðir.

Að mati bæjarráðs er nú alvarlegur skortur á húsnæði í bæjarfélaginu m.a. fyrir ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði og ennfremur fyrir leigjendur.

Eden lóðin er 11.600m2 að stærð og segir bæjarráð ljóst að þar megi með auðveldum hætti koma fyrir bæði íbúðum og verslun og þjónustu sem samræmst getur áherslum bæjarins varðandi uppbyggingu á þessu sviði.

Reiturinn afmarkast af Reykjamörk, Þelamörk, Grænumörk og Austurmörk og er markmiðið að þar megi byggja íbúðir sem myndu falla vel að núverandi byggð og þeirri notkun sem er á reitnum. Ekki yrði tekið fyrir uppbyggingu á verslun, þjónustu og landbúnaði á reitnum enda myndi slíkt samræmast byggðinni.

Bæjarráð leggur áherslu á að með þessari ákvörðun sé ekki á nokkurn hátt verið að rýra möguleikana á uppbyggingu ferðatengdrar þjónustu í bæjarfélaginu en lóðir sem kenndar hafa verið við Tívolíið sem var og hét eru enn lausar til uppbyggingar.