Eðalbyggingar buðu lægst í kennslustofur á Eyrarbakka

Barnaskólinn á Eyrarbakka. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eðalbyggingar á Selfossi áttu lægra tilboðið í byggingu færanlegra kennslustofa við Barnaskólann á Eyrarbakka.

Tilboð Eðalbygginga hljóðaði upp á 252,6 milljónir króna. Terra Einingar í Hafnarfirði buðu einnig í verkið og hljóðaði tilboð þeirra upp á 320 milljónir króna.

Starfsemi Barnaskólans á Eyrarbakka hefur farið fram í félagsheimilinu Stað og á Rauða húsinu síðan í janúar, þegar húsnæði grunnskólans var lokað vegna myglu.

Um er að ræða smíði tveggja fullbúinna kennslustofueininga, einnar skrifstofueiningar og einnar einingar sem hýsir matsal, ásamt tengigangi. Verktakinn mun einnig sjá um flutning eininga, uppsetningu og frágang. Verkinu á að vera lokið þann 31. júlí næstkomandi.

Á fundi eigna- og veitu hjá Árborg í morgun var samþykkt að ganga til samninga við Eðalbyggingar um verkið, með þeim fyrirvara að fjárheimild til þess verði samþykkt á fundi bæjarstjórnar síðar í dag.

Fyrri greinOpinn fundur Íbúalistans með Oddnýju
Næsta greinHættum að bregðast við!