Eðlan er sauðmeinlaus grænmetisæta

Iguana eðlan sem handsömuð var á Selfossi í gær var aflífuð í morgun en hún verður svo rannsökuð í tilraunastöð HÍ á Keldum.

Á Íslandi eru skriðdýr sem þessi bönnuð að öllu leyti þrátt fyrir að vera sauðmeinlausar grænmetisætur og vinsæl gæludýr víða um heim. Ástæðan fyrir banninu á innflutningi þeirra er hætta á salmonellusmiti.

Samkvæmt upplýsingum sem sunnlenska.is fékk frá eðlueiganda eru töluvert margar iguana eðlur í umferð á Íslandi. Þær ganga jafnvel kaupum og sölum á netinu og kosta 20 – 30 þúsund krónur. Töluverða natni þarf til þess að ala eðlu, stórt búr og rétt hita- og rakastig. Eðlurnar borða m.a. kál og annað grænmeti.

Eðlan sem Selfosslögreglan handsamaði var 96 sm löng og því líklega um 4 ára gömul en fullvaxta iguana eðlur verða allt að 220 sm að lengd.

Bannið við innflutningi skriðdýra á Íslandi var sett upp úr 1990 í kjölfar salmonellusmits sem rakið var til vatnaskjaldböku, en þær voru gífurlega vinsælar erlendis á þessum tíma og nutu einnig nokkura vinsælda hér á landi.

Fyrri greinÞór leiðir Jónsmessugönguna
Næsta greinHeljarstökk við brúarsporðinn