Eþíópískur veitingastaður á Flúðum

Opnaður hefur verið veitinga­staðurinn Minilik á Flúðum en eigendur hans eru Eþíópíumenn, þau Azeb Kahssay sem býr á Flúð­um, systir hennar Lemien Kahssay og eiginmaður hennar Yirga Meiconnen.

Er þetta eini slíki veitinga­staður­inn á landinu og er hann staðsettur í hjarta þorpsins þar sem ferðamiðstöðin var rekin um árabil. Á staðnum er boðið upp á nokkra eþíópíska rétti sem unnir eru úr íslensku hráefni. Þá er einnig boðið upp á nokkrar vel valdar tegundir af kaffi en kaffijurtin á einmitt uppruna sinn í héraðinu Kaffa í Eþíópíu.

Veitingastofan sem tekur 25 manns í sæti er einkar smekklega skreytt. Í sumar er opið alla daga nema mánudag en áformað er að hafa opið um helgar í vetur.